Segir frumvarpið ekki hafa verið nægilega vel unnið

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
„Hið svokallaða stríð gegn fíkniefnum hefur að öllum líkindum kallað yfir okkur meiri hörmungar en neyslan sjálf,“ skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í færslu á Facebook í dag. 

Frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefna var fellt á Alþingi aðfaranótt þriðjudags. Áslaug Arna greiddi ekki atkvæði. Í frumvarpinu fólst meðal annars að varsla efna yrði einungis bönnuð þegar magn þeirra væri umfram það sem gæti talist til eigin nota. Í frumvarpinu segir að þannig megi tryggja að áfram verði „hægt að sakfella fyrir það sem kann að teljast alvarlegri brot á lögum um ávana- og fíkniefni, en refsingum ekki beitt gegn neytendum fíkniefna“.  

Áslaug segir frumvarpið ekki nægilega vel unnið  

Í Facebook-færslunni segir Áslaug að frá því að hún hóf þátttöku í stjórnmálum hafi hún verið þeirrar skoðunar að ekki ætti að refsa einstaklingum fyrir notkun vímuefna. Hún muni beita sér fyrir afglæpavæðingu fíkniefna og sé í grunninn sammála markmiðum frumvarpsins en það hafi hins vegar ekki verið „nægilega vel unnið“. Á því hafi verið ýmsir alvarlegir gallar og að réttara væri að „vanda til verka og halda vinnunni áfram“.   

Neysluskammtar séu ekki skilgreindir 

Áslaug gagnrýnir að í frumvarpinu séu neysluskammtar ekki skilgreindir. Í því samhengi skrifar hún: „Það er ekki hægt að búa til eða afnema refsiramma um einhver matskennd atriði sem ekki eru skilgreind í lögum. Hér er um að ræða líf fólks, viðkvæmt málefni og flókin sjúkdóm. Þess heldur er mikilvægt að lögin séu skýr.“  

Í færslunni segir Áslaug „eðlilegt að frumvörp sem breyta framkvæmd séu unnin í samstarfi við sérfræðinga og þá aðila sem beita lögunum, t.d. refsiréttarnefnd, ríkissaksóknara og lögreglu. Í kjölfarið er eðlilegt að frumvarpið fari í opið samráð. Það er rétt að ráðast í þetta ferli sem fyrst.“  

Segir Sjálfstæðisflokkinn hafa fyrstan sett málið á dagskrá 

Hún segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrstur sett málið á dagskrá. Vísar þá Áslaug til skýrslu sem Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, lét vinna árið 2015 eftir að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu. Birgitta Jónsdóttir, þáverandi þingmaður Pírata, var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar sem hlaut stuðning frá þingmönnum úr öllum flokkum þann 16. maí 2014. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi