Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mótmæla því að Nýsköpunarmiðstöð verði lögð niður

02.07.2020 - 08:04
Mynd með færslu
 Mynd: 360° vefur - Já.is
Starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar mótmælir áformum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra um að leggja miðstöðina niður um næstu áramót. Þórdís Kolbrún tilkynnti í febrúar að Nýsköpunarmiðstöð yrði lögð niður og sagði þá að hluta verkefna hennar mætti vel sinna af aðilum á markaði. Starfsfólk Nýsköpnarmiðstöðvar óttast að það verði mikið áfall fyrir nýsköpunarstarf í landinu að leggja miðstöðina niður og að það sé alls ekki það sem íslenskt samfélag þurfi á að halda núna.

Starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hittust á fundi í gær og samþykktu þá ályktun. Þar segir að miðstöðin og forverar hennar hafi lengi verið í fararbroddi hagnýtra rannsókna og aðstoðar við frumkvöðla og fyrirtæki hér á landi. Þess vegna hafi orðið til fyrirtæki sem myndað hafi gríðarleg verðmæti og mörg ný störf. Að auki hafi Nýsköpunarmiðstöð gegnt mjög mikilvægu hlutverki eftir fjármálahrunið 2008. 

„Við teljum fyrirætlanir ráðherra um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð verði mikið áfall fyrir nýsköpunarstarf í landinu og alls ekki það sem samfélagið þurfi á að halda,“ segir í yfirlýsingunni. „Við, starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skorum á ráðuneytið að standa vörð um grunnstoðir nýsköpunar í landinu og tryggja samfellu fyrir þau mikilvægu verkefni sem Nýsköpunarmiðstöð hefur gegnt, sem og tryggja að þekkingin og reynslan sem starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar hefur aflað sér muni áfram nýtast í þágu íslensks atvinnulífs og áfram tryggja stuttar boðleiðir á milli fagsviða.“

Starfsfólkið fer einnig fram á ða vera haft með í ráðum um hvernig um hvernig hagnýtar rannsóknir og þjónusta við frumkvöðla og fyrirtæki verði efld fremur en löskuð eins og starfsfólkið segir að nú stefni í. Jafnframt óskar það eftir umræðu um nýsköpunarmál og framtíð Nýsköpunarmiðstöðvar.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV