Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meirihluti áhafnar Herjólfs boðar til verkfalls

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Búið er að boða sólarhrings vinnustöðvun hjá meirihluta áhafnar Herjólfs frá miðnætti þriðjudaginn 7. júlí. Samtök atvinnulífsins vísuðu deilu félaga í Sjómannafélagi Íslands og Herjólfs ohf. til Félagsdóms í síðustu viku.

Dómsuppkvaðning verður í málinu á mánudaginn. Kosið var um tímabundna vinnustöðvun hjá meirihluta áhafnar Herjólfs í Sjómannafélagi Íslands í síðustu viku. Allir sem tóku þátt, 17 af 20 félagsmönnum, samþykktu vinnustöðvun einróma samkvæmt Jónasi Garðarssyni, eftirlitsmanni hjá Sjómannafélagi Íslands. 

Starfsumhverfið gjörbreytt

Jónas segir að deilan snúist um mannfjölda á vakt og vinnufyrirkomulag á sumrin fyrir háseta og þjónustufólk. Færri séu á vakt um borð í nýja Herjólfi þrátt fyrir að vinnuaðstæður séu erfiðari. Hann segir Herjólf ohf. hafa hunsað beiðni meirihluta áhafnarinnar um að ráða þessu bót. 

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir gildandi kjarasamninga vera við allt starfsfólk. Farið sé eftir samþykktum kjarasamningi við Sjómannafélagið Jötunn í Vestmannaeyjum fyrir háseta og þjónustufólk. „Við teljum þar vera ákvæði sem séu forgangsákvæði. Við teljum að okkur sé ekki skylt að gera kjarasamninga við aðra og fleira aðila. Ég hef ekki fengið athugasemd frá mínu starfsfólki varðandi kjörin eða vinnustarfsemina.“

Hann segir að félagið hafi engar skyldur eða ábyrgð yfirtekið þegar það var stofnað í júní í fyrra eftir að það tók við rekstrinum. Þá hafi verið ákveðið að þrjár áhafnir skyldu sigla á tvískiptum vöktum. „Í raun er starfsumhverfið gjörbreytt,“ segir Guðbjartur Ellert.

Boðun vinnustöðvunar kom á óvart

Guðbjartur segir það hafa komið á óvart að boðað hafi verið til vinnustöðvunar. „Þetta var óvænt en það er eðlilegt að Félagsdómur skeri úr um málið.“

Á mánudag kemur í ljós hvort af vinnustöðvuninni verður. Einnig er fyrirhuguð vinnustöðvun 14. júlí í tvo sólarhringa frá miðnætti.