Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands segir af sér

02.07.2020 - 08:56
New Zealand Health Minister David Clark, center, flanked by Cabinet colleagues Grant Robertson, right, and Kris Faafoi addresses a press conference where he announced his resignation at parliament in Wellington, New Zealand Thursday, July 2, 2020. Clark resigned Thursday following a series of personal blunders during the coronavirus pandemic. (Mark Mitchell/New Zealand Herald via AP)
 Mynd: Mark Mitchell - New Zealand Herald
David Clark, heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands, sagði af sér í dag. Clark varð tvisvar sinnum uppvís að því að fara gegn tilmælum sem ríkisstjórn hans setti í baráttunni við kórónuveiruna.

Heilbrigðisráðherrann hélt blaðamannafund, í nótt að íslenskum tíma, en þá var kominn fimmtudagsmorgun í Nýja-Sjálandi. Hann sagðist hafa tekið þá ákvörðun sjálfur að segja af sér embætti og Jacinda Ardern forsætisráðherra hefði þegar samþykkt afsögnina. Ástæðan, segir Clark, er sú að seta hans í ríkisstjórn hafi verið orðin of truflandi. 

Heilbrigðisráðherrann varð tvisvar sinnum uppvís að því að brjóta strangt útgöngubann þegar það var í gildi, þegar hann fór út að hjóla og svo með alla fjölskylduna á ströndina. Hann minnti fréttamenn á að þá hafi hann boðist til að segja af sér. Þá stóð faraldurinn sem hæst í landinu og þótti forsætisráðherra hins vegar ekki tímabært að gera breytingar í ríkisstjórninni, hvað þá sem tengdust heilbrigðiskerfinu. 

Ekkert samfélagssmit í landinu

Nýja-Sjáland hefur hlotið mikið hrós og heimsathygli fyrir viðbrögð sín gegn kórónuveirunni. Þar hafa færri tilfelli greinst í öllu landinu en hér á Íslandi, rétt yfir 1.500. Áttunda júní var ekkert virkt smit í landinu og þá lýsti forsætisráðherrann því yfir að landið væri laust veiruna. Frá sextánda júní hafa þó greinst nokkur smit dag frá degi, öll við landamæraskimun en samfélagssmit hefur ekki tekið sig upp aftur í Nýja-Sjálandi. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV