
Fræsa víða í kjölfar slyssins á Vesturlandsvegi
Fræsa í dag og á morgun
Í dag voru fræstar báðar akreinar á Bústaðavegi, frá mislægum gatnamótum við Kringlumýrarbraut að gatnamótum við Litluhlíð. Í dag stóð einnig til að fræsa eina akrein á Reykjanesbraut í Garðabæ, milli Kauptúns og Vífilsstaðarvegar. Framkvæmdir gætu staðið til klukkan 20:00 í kvöld.
Á morgun stendur svo til að fræsa eina akrein á Sæbraut, milli Dalbrautar og Langholtsvegar milli klukkan 9:00 og 15:00. Gullinbrú hefur nú þegar verið malbikuð að nýju en vegkaflinn var fræstur á mánudaginn síðastliðinn.
Malbikið allt úr sama útboðinu
Malbikið sem um ræðir er allt úr sama útboði og malbikið sem hafði verið lagt á Vesturlandsvegi þegar slysið varð þar á sunnudag. Það reyndist ekki standast öryggiskröfur og í kjölfar slyssins var ráðist í hálkuverjandi aðgerðir á Vesturlandsvegi. Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni er viðnámið þar nú viðunandi. Vegurinn verður þó undir eftirliti og til stendur að malbika þar að nýju á mánudag.