Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fótboltaveisla á Akureyri um helgina

02.07.2020 - 13:56
Búið er að koma fyrir á annað hundrað sprittstöðvum á einu stærsta yngriflokkamóti sumarsins á Akureyri um helgina. Tæplega tvö þúsund drengir taka þátt og mótsstjóri segir snúið að halda fótboltamót á tímum farsóttar.

Reiknað með þúsundum gesta til Akureyrar

Mikill fjöldi aðstandenda fylgir keppendum á mótið og má því reikna með þúsundum gesta til Akureyrar. Sævar Pétursson, framkvæmdarstjóri KA segir að ýmsu að hyggja. 

„Það var mun meira sem við þurftum að hafa áhyggjur af útaf Covid. Við þurftum að breyta gistirýmum, við þurftum að skipta upp svæðinu fjölga veitingasölum og svona ýmislegt sem þurfti að huga að,“ segir Sævar.

„Við erum hérna með, ég held það séu 180 sprittstöðvar í skólum og herbergjum þar sem við erum svona að reyna eftir besta megni að koma til móts við allar þær ábendingar sem við höfum fengið frá bæði KSÍ  og Almannavörnum. “

Vel staðið að málum

Steinar Logi Rúnarsson, hefur komið á mótið sem þjálfari undanfarin ár.  Hann segir vel að öllu staðið.  „Það er náttúrlega smá breyting, það er búið að hólfa þetta niður þannig að það eru svona nokkur hólf. Og þeir nota líka Akureyrarvöll og svo er þetta skylt að með svona böndum.“ 

„Svo eru gæslumenn sem að spritta þegar við komum hérna inn svæðið þannig að það er svona helsti munurinn varðandi Covid en heilt yfir er þátta náttúrlega bara eins og alltaf. Frábært verður á Akureyri og sprækir strákar að gera sitt besta.“

Lögreglan hefur ekki áhyggur af fjöldanum

Þetta er ekki eina mótið á Akureyri um helgina en á svæði Þórs verður hið árlega Pollamót. Á því móti eru keppendur töluvert eldri. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda hefur Kristján Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri ekki áhyggjur af stöðunni. 

„Ég held að það séu allir að gera sitt allra allra besta og ég þessir forráðamenn þessara móta eru bara held ég að standa sig mjög vel. Ég bendi fólki bara á að að huga að sínum eigin persónulegu sóttvörnumm, halda bili, spritta sig sleppa knúsinu,“ segir Kristján.