Barn á öðru ári greindist með COVID-19 í gær

02.07.2020 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Barn á öðru ári greindist með COVID-19 hérlendis í gær. „Það er rúmlega árs gamalt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Það var skoðað í gær og er einkennalaust eins og er.“ Þórólfur hefur áhyggjur af stórum fótboltamótum. Lítið þurfi til að þar komi upp hópsýking. 

Fimmtán manns í sóttkví, tíu í sýnatöku

Í fyrradag greindist smit í konu sem kom frá Albaníu 20. júní. Í kringum hana eru um fimmtán manns nú í sóttkví.  „Ætli það séu ekki innan við tíu einstaklingar sem hafa farið í sýnatöku í tengslum við þá konu, “ segir Þórólfur. Samkvæmt heimildum fréttastofu er hún móðir barnsins sem greindist í gær.

Tveir greindust við landamærin í gær. Enn er unnið að mótefnamælingum hjá þeim sem sýna hvort smitin eru ný eða gömul. Þrír greindust við landamærin í fyrradag, allir með gamalt smit.

Innanlandssmit eru orðin átta eftir að slakað var á ferðatakmörkunum fyrir rúmum hálfum mánuði. Vel á fjórða hundrað fóru í sóttkví eftir að fótboltakona greindist smituð nokkrum dögum eftir að hún kom til landsins. 

Er búið að ná utan um hugsanlega hópsýkingu í tengslum við það? „Við vitum að meðgöngutími sýkingarinnar getur verið allt að tvær vikur. Við erum ekki búin að sjá fyrir endann á því en alla vega hafa ekki nein ný tilfelli greinst núna síðustu tvo til þrjá til daga sem við getum rakið til þess þannig að vonandi hefur tekist að stoppa það.“

Áhætta fylgir stórum fótboltamótum

Samkomubann miðast nú við fimm hundruð manns, börn á grunnskólaaldri eru frátalin. Skipuleggjendur stórra fótboltamóta sem þegar hafa verið haldin, hafa reynt að hólfa þau niður. „Við höfum áhyggjur af þessum stóru mótum. Það er erfitt að halda þessum hólfum algjörlega aðskildum frá A-Ö á öllum tímapunktum,“ segir Þórólfur.

Um 2.300 krakkar verða á Símamóti Breiðabliks um aðra helgi. Þórólfur segir að vel sé fylgst með þessum mótum, þeim fylgi áhætta. „Það þarf ekki mikið að gerast til að það komi hópsýking. Við erum að höfða til allra um að skilja af hverju við erum að biðla til einstaklinga um að passa sig og það getur vel verið að við þurfum að gefa út skýrari skilaboð um að svona stór mót séu óæskileg. En þetta ræðst á næstunni.“

Þannig að það kemur til greina að þið biðjið skipuleggjendur um að fresta þessum mótum? „Það kemur til greina að við skýrum betur út hvað það er sem við höfum áhyggjur af og það gæti verið einn partur af því sem gæti komið fram.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi