Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Yfirgnæfandi meirihluti samþykkti breytingar Pútíns

01.07.2020 - 22:51
Mynd: EPA-EFE / EPA
Yfirgnæfandi meirihluti Rússa samþykkti stjórnarskrárbreytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í málefnum Rússlands, segir að með breytingunum færist stjórnskipun landsins í íhaldssama og þjóðernissinnaða átt. 

Þegar 85 prósent atkvæða höfðu verið talin í kvöld var niðurstaðan sú að 77,8 prósent samþykktu breytingarnar. Kosið var um tvö hundruð breytingar á stjórnarskrá landsins í einum pakka. Kjörsókn var um 65 prósent, samkvæmt tölum fyrr í kvöld.

Segir breytingarnar endurspegla þróunina undanfarið

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, kynnti stjórnarskrárbreytingarnar óvænt í janúar. Jón segir að andi breytinganna hafi orðið íhaldssamari í meðförum rússneska þingsins, en hann var þegar þær voru fyrst kynntar. Andinn endurspegli íhaldssamar áherslur stjórnmálaflokka á rússneska þinginu og sömuleiðis hvernig lagasetning hafi þróast undanfarin ár. „Sem hefur verið í áttina frá frjálslyndum gildum og meira í átt að því að lögfesta ákveðna þjóðernishyggju og svona menningarlega og trúarlega íhaldssemi. Pútín leggur alltaf mikla áherslu á það að Rússland sé síðasta vígi hinna kristnu gilda og svo framvegis og þetta er partur af því,“ segir Jón. 

Breytingarnar, sem stefnir í að verði að lögum, kveða meðal annars á um að Pútin geti boðið sig fram á ný þegar þessu kjörtímabíli lýkur árið 2024. Jón segir það þó ekki helstu tíðindin, að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Stóra málið sé frekar hvernig rússnesk stjórnskipun færist í íhaldssama og þjóðernissinnaða átt. Til dæmis verði hjónaband skilgreint sem samningur milli karls og konu. Fleiri ákvæði grafi undan réttindum samkynhneigðra og annarra hópa.

Mynd með færslu
Jón Ólafsson, prófessor við HÍ og sérfræðingur í málefnum Rússlands.  Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin

Gagnrýnendur hafa bent að þegar ákvæðið sé komið í stjórnarskrá sé enn síður útlit fyrir að hjónabönd samkynhneigðra verði að lögum í landinu á næstu árum.

Má bjóða sig fram á ný en hefur engu lýst yfir

Pútín hefur ekki svarað af eða á varðandi það hvort hann bjóði sig fram á ný og segir Jón ekki hægt að slá því föstu að forsetinn vilji að sitja áfram eftir 2024. Sú heimild að mega bjóða sig fram gefi honum aftur á móti aukna vigt þau fjögur ár sem eftir eru af kjörtímabilinu. Það sé ef til vill ekki eftirsóknarvert fyrir Pútín að sitja endalaust á forsetastóli. Hins vegar sé varhugavert fyrir hann að skilja við á þann hátt að fólkið í hans nánasta hring geti orðið undir í valdabaráttu. „Það þarf ekkert mikið að gerast í rússneskri valdabaráttu, ef að Pútín er horfinn, til þess að það komist til valda einhverjir aðrir hópar sem kannski vilja sækja hann til saka eða á einhvern hátt uppræta spillinguna sem hefur grasserað af hans völdum eða gera hann að blóraböggli fyrir eitthvað.“ Staðan sé því flókin og því skipti máli fyrir forsetann á þessari stundu að geta haldið um stjórnartaumana á sama hátt og áður. 

epa08519807 Russian President Vladimir Putin (R) shows his passport while taking part in a nationwide vote on amendments to the Russian Constitution during the main day of vote at a polling station in Moscow, Russia, 01 July 2020. The polling stations were opened for vote on 25 June to avoid crowding amid ongoing COVID-19 disease in Russia.  EPA-EFE/ALEXEI DRUZHININ / SPUTNIK / KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
Pútín á kjörstað í dag. Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK / KREMLIN POOL