Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Verulega dró úr hópuppsögnum í júní

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Tilkynningar um hópuppsagnir hjá fjórum fyrirtækjum bárust Vinnumálastofnun í júní. Ná þær til 155 starfsmanna. Í maí­ var 1.323 manns sagt upp í 23 hópupp­sögn­um. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar hafi atvinnuleysi staðið í stað í júní.

At­vinnu­leysi í maí var rúm sjö prósent í mælingum Vinnumálastofnunar en 9,9 prósent samkvæmt Hagstofunni, eða 20.800 manns. Líta þarf aftur til áranna 2009 til 2011 til að sjá jafn mikið mánaðarlegt atvinnuleysi. 

Enn er mikið álag á Vinnumálastofnun við afgreiðslu bóta.

„Það gengur alveg ágætlega. Við erum alveg á fullu,“ segir Unnur. Búið er að bæta við starfsfólki og vonast Unnur til að það skili árangri í júlí. Of margir bíði enn eftir að fá greitt en hún ítrekar að staðan sé fordæmalaus. Sumarfrí starfsmanna eigi ekki að hafa áhrif á úrvinnslu umsókna.

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans spáði því í dag að atvinnuleysi aukist á árinu og nái nýjum hæðum en fari ekki yfir tíu prósent.