Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vara við skriðuföllum austur á Melrakkasléttu

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Veðurstofa Íslands og Almannavarnir minna á að óvissustig Almannavarna á Norðausturlandi vegna jarðskjálftahrinunnar sem hófst 19. júni er enn í gildi. Rannsóknir á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu benda til að enn sé innistæða fyrir stærri skjálfta allt að stærð sjö á misgenginu.

Auknar líkur eru á stærri skjálftum meðan hrinan er í gangi.

Stór skjálfti getur valdið skriðum og fljóðbylgju

Ef að kæmi til svo stórs skjálfta er hugsanlegt að hann myndi valda grjóthruni og skriðum auk þess sem þekkt er að sumir stærri skjálftar valdi flóðbylgjum. Hættan á skriðuföllum er því ekki einungis bundin við norðanverðan Tröllaskaga og Flateyjarskaga eins og áður hefur verið greint frá heldur einnig austur á Melrakkasléttu.

Síðan jarðskjálftahrinan hófst hafa ríflega 9000 skjálftar mælst og er þetta öflugasta hrinan á Tjörnesbrotabeltinu í ríflega 40 ár.

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Á kortinu má sjá ríflega 2000 yfirfarna jarðskjálfta úr hrinunni sem hófst föstudaginn 19. júní og stendur enn yfir. Jarðskjálftarnir eru litaðir þ.a. að nýjustu skjálftarnir (frá 1. júlí) eru rauðir en þeir elstu bláir.

Almenn tilmæli og upplýsingar til Almennings verði jarðskjálfti af stærðinni sex eða stærri í nágrenni við Flatey og Húsavík.

  • Halda kyrru fyrir meðan að jarðskjálftinn ríður yfir
  • Halda sig frá byggingum sem hafa skemmst
  • Halda sig frá skriðuhlíðum
  • Halda sig frá höfninni og strönd vegna hugsanlegrar flóðbylgju af hafi næstu klukkustundir
  • Búast má við að tugir eftirskjálfta finnist í nærumhverfi skjálftaupptakanna næstu 24 tímana 

Sigurjón Jónsson, prófessor í jarðeðlisfræði í Sádí-Arabíu, ræddi við fréttastofu á dögunum um virknina á Húsavíkur- Flateyjarmisgenginu.

Sprungukerfi sem býr yfir mikilli spennu

„Húsavíkur-Flateyjar sprungukerfið er búið að vera býsna virkt á undanförnum áratugum úti fyrir mynni Eyjafjarðar og hafa verið nokkrar öflugar hrinur á síðustu 25 árum, eða svo, meðal annars 1997 og svo 2012 sem er búið að tala svolítið um í sambandi við virknina nú,“ segir Sigurjón.

Þetta sé sprungusvæði sem getur framkallað mjög stóra skjálfta. Það þurfi að líta aftur til 1872 þegar urðu tveir skjálftar stærri en sex og sjö austarlega á sprungubeltinu í grennd við Húsavík og svo Flatey. Á undanförnum áratugum hefur smáskjálftavirkni bent á það að það sé miklu meiri virkni og spenna í þessu sprungukerfi vestast þar sem seinni hrinur hafa átt sér stað.

Brotabeltið á Norðurlandi sker sig úr

„Það er langlíklegast að svona hrinur hjaðni með tíma og ekkert stórt fylgi í kjölfarið en það er svolítið athyglisvert við Norðurland, að ef maður skoðar sögulegar heimildir er ekki óalgengt  að stórskjálftar á Norðurlandi eigi upptök sín í hrinum, sem sagt að það sé nokkur hrinuvrirkni áður en stærsti atburðurinn á sér stað.“

Sigurjón segir þetta ekki algengt annars staðar í heiminum. Yfirleitt sé mjög lítill fyrirvari á stórum jarðskjálftum, líkt og í Suðurlandsskjálftunum.

Flókið sprungukerfi vestast

„Þetta er ekki ein samfelld stórsprunga og það er að hluta til vegna þess að þarna er kerfið farið að fléttast saman við Eyjafjarðarál sem er sigdalur með stórum siggengis misgengjum líkt og á Þingvöllum.“

Mynd með færslu
 Mynd: