Upplýsingafundur vegna opnunar landamæra

01.07.2020 - 11:04
Mynd með færslu
 Mynd: Júlíus Sigurjónsson
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur boðað til upplýsingafundar klukkan tvö í dag. Þar ætla Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Páll Þórhallsson, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn að fara yfir stöðu mála varðandi opnun landamæra og COVID-19 hér á landi.

Farþegar sem koma til landsins þurfa frá og með deginum í dag að greiða fyrir skimun en hafa áfram kost á að fara í tveggja vikna sóttkví í stað skimunar.

Íslensk stjórnvöld vinna að innleiðingu tilmæla frá Evrópusambandinu um afnám tímabundinna ferðatakmarkana inn á Schengen svæðið fyrir íbúa fimmtán ríkja. Aðildarríki ESB samþykktu listann í gær og verður hann endurskoðaður á að minnsta kosti tveggja vikna fresti.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins kemur fram að reglugerð verði gefin út á næstu dögum. Sömu skilyrði eiga þá við íbúa ríkjanna fimmtán við komuna tli landsins og hafa átt við um íbúa Evrópusambandsins og Schengen svæðisins.
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi