Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tímamörk á forseta og þingræði bundið í stjórnarskrá

01.07.2020 - 10:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Hámark verður sett á þann tíma sem einstaklingur getur gegnt embætti forseta og þingræðisreglan verður bundin í stjórnarskrá, ef frumvarp að breytingum á stjórnarskrá verður að lögum. Jafnframt er kveðið á um að Alþingi geti afturkallað lög sem forseti synjar staðfestingar, þannig að ekki fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þau.

Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda í morgun. Það byggir á þeirri vinnu sem unnin hefur verið frá upphafi árs 2018 af hálfu formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Fram kemur í samráðsgáttinni að vinna við frumvarpið sé nógu langt komin til að rétt sé að leita álits og athugasemda almennings en að birtingin feli ekki í sér skuldbindingu formannanna til að leggja frumvarpið fram á Alþingi. 

Breytt staða forseta

Miklar breytingar á stjórnarskrá er að finna í frumvarpinu. Þær snúa að forsetaembættinu, stöðu ríkisstjórnar gagnvart Alþingi og verkefnum framkvæmdavaldsins.

Einna mestu breytingarnar snúa að kjöri forseta. Lagt er til að kjörtímabil hans verði sex ár í stað fjögurra og að forseti megi aðeins sitja í tvö kjörtímabil, tólf ár. Jafnframt á nýtt kjörtímabil forseta að hefjast 1. júlí í stað 1. ágúst eins og nú er. Þau ákvæði tækju þó ekki gildi fyrr en að loknu því kjörtímabili sem Guðni Th. Jóhannesson var kosinn til um síðustu helgi. Þrír af fimm fyrri forsetum sátu sextán ár eða lengur, einn sat tólf ár og sá eini sem sat skemur á forsetastóli andaðist í embætti. Það var Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins. 

Jafnframt er endurskoðaður fjöldi meðmælenda sem þarf með forsetaframboði. Það miðast nú við 1.500 undirskriftir að lágmarki og 3.000 að hámarki, og hefur sú tala verið óbreytt frá 1944. Nú er lagt til að 2,5 til 5,0 prósent kosningabærra þurfi að undirrita meðmæli. Það er í dag 6.300 til 12.600 manns.

Í frumvarpinu er einnig gerð sú breyting að forseti verður aðeins ábyrgðarlaus af þeim athöfnum sem hann framkvæmir að tillögu og á ábyrgð ráðherra. Nú er forseti ábyrgðarlaus af öllum athöfnum.

Þingræðið fest í stjórnarskrá

Í gildandi stjórnarskrá er þingræði ekki nefnt berum orðum heldur talað um þingbundna stjórn. Í frumvarpinu sem nú er kynnt til sögunnar segir að ríkisstjórn verði að njóta stuðnings eða hlytleysis meirihluta Alþingis. Forseti fengi samkvæmt frumvarpinu heimild til að óska eftir yfirlýsingu frá Alþingi um að ríkisstjórnin njóti stuðnings eða hlutleysis þingsins áður en hann skipar nýja ríkisstjórn.

Nýtt ákvæði um vantraust er sett í stjórnarskrá, samkvæmt frumvarpinu, og tengist þingræðisreglunni. Þar er kveðið á um að enginn ráðherra geti setið í embætti eftir að Alþingi hefur samþykkt vantraust á hann. Ef Alþingi samþykkir vantraust á forsætisráðherra verður hann þegar að biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína. Ríkisstjórnin starfar áfram sem starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn tekur við völdum. Tiltekið er að ráðherrar í starfsstjórn mega aðeins taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru.

Mynd með færslu
 Mynd:

Brugðist við krísum fyrri ára

Nokkrar breytingar sem lagðar eru til kallast á við deilumál og átök síðustu áratuga.

Þar má fyrst nefna að Alþingi fær heimild í stjórnarskrá til að afturkalla lög sem forseti hefur synjað staðfestingar. Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, synjaði lögum staðfestingar fyrstur forseta árið 2004. Þá neitaði hann að undirrita umdeild fjölmiðlalög. Deilur spruttu um heimild forseta og viðbrögð ríkisstjórnar. Helstu forsvarsmenn ríkisstjórnar efuðust fyrst um rétt forseta og hugðust síðar breyta lögum lítillega og komast þannig hjá synjuninni. Að lokum felldi Alþingi lögin úr gildi án þess að þjóðin fengi að greiða atkvæði um þau, eins og kveðið var á um í stjórnarskrá. Efasemdir risu um heimild þingsins til þess þar sem í stjórnarskrá er kveðið á um að lög sem forseti synjar fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú fær Alþingi skýra heimild í stjórnarskrá til að afturkalla lög, samkvæmt frumvarpinu.

Einnig er að finna ákvæði um hvernig tekið skuli á ráðherraábyrgð. Alþingi ákærði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, eftir hrun og dæmdi Landsdómur í málinu. Í frumvarpinu er lagt til að Alþingi geti ákært ráðherra eða falið ríkissaksóknara að fara með ákæruvaldið. Jafnframt á að kveða á um ráðherraábyrgð, rannsókn, ákæru og málsmeðferð fyrir dómi í lögum. Einnig er stjórnarskrárákvæðið um ríkisstjórnarfundi, eini liðurinn sem Geir var sakfelldur fyrir, umorðað.

Forseti verður hér eftir að leita álits forseta Alþingis og formanna þingflokka ef forsætisráðherra vill rjúfa þing. Áður var litið svo á að forsætisráðherra hefði rétt til að rjúfa þing, og vakti stundum miklar deilur þegar hann gerði slíkt. Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, gekk á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta, í miðju Panamaskjalamálinu árið 2016 greindi þá á um það hvort forsætisráðherra hefði farið fram á þingrof. Einnig var umdeilt hvort forseti yrði að verða við slíkri beiðni eða ekki. Nú er lagt til að skýrt verði kveðið á um samráð forseta við fulltrúa þingsins við slíkar aðstæður.