Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þarft að vera sérstök tegund af hálfvita“

01.07.2020 - 15:09
Mynd: RÚV / Sumarlandinn
Tveir rúmlega tvítugir Grímseyingar keyptu sér nýlega sinn strandveiðibátinn hvor og buðu Úllu Árdal í Sumarlandanum með sér á handfæraveiðar á Grímseyjarsundi.

„Maður var byrjaður að fara með pabba sem polli,“ segir Ingólfur Bjarni Svafarsson, „búinn að vera alltaf á sjó bara. Þetta var svona það eina rökrétta í stöðunni.“ Bjarni Reykjalín Magnússon fór líka á sjó með föður sínum sem krakki og eftir að frændi hans keypti sér strandveiðibát liðu ekki meira en 4-5 dagar þar til hann var sjálfur búinn að festa kaup á einum slíkum. „Ég sé alla vega ekki eftir þessu. Hæstánægður. Þetta er gaman, hægt að hafa ágætis tekjur þannig.“ Hann hefur þó glímt við smávegis byrjunarörðugleika. „Það bilaði aðeins hjá mér en þetta lítur betur og betur út, ég er að læra inn á bátinn.“

Bátur Ingólfs Bjarna er af tegundinni Sómi-800 og hann segir að þetta sé toppeintak. Í haust ætlar hann að fara suður í Stýrimannaskólann. Bjarni segir að Grímseyingar gleðjist alltaf þegar ungt fólk kemur með nýja báta til hafnar. „Þá er hefð í Grímsey að detta hraustlega í það á kostnað kaupanda bátsins. Það var þannig hjá okkur báðum, rosa gaman.“ Ingólfur segir að rómantíkin sem áður sveif yfir sjómennskunni sé að mestu horfin. „Í dag þarftu að vera sérstök tegund af hálfvita til að æða út í þetta.“ Einn af kostunum er þó að vera sinn eigin herra þótt vinnudagurinn geti stundum orðið langur. „Þetta getur verið 12-14 tíma vinnudagur, en líka sex eða minna,“ segir Bjarni. Hann finnur aldrei fyrir ógleði í vaggandi bátnum en Ingólfur einstaka sinnum. „Það er alltaf fyrstu dagarnir eftir að hafa verið lengi í fríi. Þá er maður yfirleitt ælandi í kannski tvo daga en svo er þetta búið.“

Úlla Árdal brá sér á handfæraveiðar í Sumarlandanum.