Storytel með tögl og hagldir í íslenskum bókabransa

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett

Storytel með tögl og hagldir í íslenskum bókabransa

01.07.2020 - 12:47

Höfundar

Hljóðbókafyrirtækið Storytel hefur keypt 70% hlut í Forlaginu, stærstu bókaútgáfu landsins. Snæbjörn Arngrímsson, fyrrum útgefandi og eigandi bókaforlagsins Bjarts, segir á bloggsíðu sinni að nú verði íslenskir höfundar að beygja sig undir vald sænska stórfyrirtækisins til að lifa af.

Tilkynnt hefur verið um kaup Storytel AB, móðurfélags Storytel á Íslandi, á 70% hlut í Forlaginu. Þetta eru mikil tíðindi á Íslenskum bókamarkaði. Snæbjörn Arngrímsson, fyrrverandi eigandi bókaforlagsins Bjarts, tjáir sig um málið á bloggsíðu sem hann heldur úti. Þar segir hann að Storytel sé öflugt fyrirtæki, kraftmikið og stefnufast, en nú sé líklegt að Bjartur og önnur bókaforlög á Íslandi muni finna fyrir „járnkrumlu“ Storytel þegar kemur að útgáfu og dreifingu hljóð- og rafbóka. 

Kaupin eiga vitanlega einnig eftir að hafa áhrif á rithöfunda sem starfa á Íslandi og segir Snæbjörn að það verði forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum þeirra. „Hingað til hefur sú þjóðsaga gengið höfunda á milli að Storytel sé handhafi hins illa, þeirra markmið er að hlunnfara höfunda. Það er svo sem ekki rétt, Storytel stundar viðskipti á þeim forsendum að fá eins mikið fé út úr viðskiptum sínum og mögulegt er. Þannig eru víst flest fyrirtæki rekin. Nú er það Storytel sem hefur tögl og hagldir í íslenskum bókabransa. Höfundar sem vilja lifa af þurfa að beygja sig undir vald [Storytel].“

Íslenskir rithöfundar hafa áður tjáð óánægju sína með framgöngu Storytel á Íslandi. Í fréttum, skömmu eftir að hljóðbókaveitunni var ýtt úr vör á Íslandi, var sagt frá því að margir höfundar væru ósáttir við að boðið hefði verið upp á bækur þeirra í áskriftarstreymi án beinna samninga við höfunda.

Þess ber að geta að það er móðurfélag Storytel á Íslandi sem hefur nú eignast 70% hlut í Forlaginu. Selj­and­inn, bók­mennta­fé­lagið Mál og menn­ing, fer áfram með 30% hlut í félag­inu og starfar áfram sem sjálf­stætt bóka­for­lag, aðskilið frá streym­isveitu Storytel á Ísland­i. 

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, segir í fréttatilkynningu að samstarfið opni margar dyr fyrir höfundum Forlagsins. „For­lagið byggir á aldar­gam­alli hefð útgef­enda sem hafa gert það að ævi­starfi sínu að koma íslenskum bók­menntum á fram­færi. Við erum afskap­lega ánægð og hlökkum til sam­starfs­ins með Storytel sem er kraft­mikið nýsköp­un­ar­fyr­ir­tæki á sviði staf­rænnar útgáfu.“

Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Máls og menningar, segir í tilkynningunni að kaupin tryggi áframhaldandi útgáfu á bókmenntaperlum og geri forlaginu kleift að styðja betur við nýja höfunda. „Mál og menn­ing mun í þessu skyni nýta stóran hluta kaup­verðs­ins til stofn­fjár sjóðs sem mun hafa það hlut­verk að efla íslenskar bók­menntir með stuðn­ingi við rit­höf­unda og bóka­versl­un.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Forlagið selur Storytel AB 70% hlut

Bókmenntir

Að strauja, hlaupa, keyra og samt að lesa bók

Bókmenntir

Hljóðbókaveita opnar með látum á Íslandi

Bókmenntir

Rithöfundar ósáttir við Storytel