Stórsigur Selfoss á Stjörnunni

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stórsigur Selfoss á Stjörnunni

01.07.2020 - 21:05
Einn leikur var á dagskrá í fjórðu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Selfoss vann þar öruggan sigur á Stjörnunni í Garðabæ.

Aðeins tveir leikir fóru fram af þeim fimm sem áttu að fara fram í fjórðu umferðinni í vikunni. Þremur leikjum var frestað vegna COVID-smita í deildinni og fjölda leikmanna sem eru í sóttkví. Valur vann 3-1 sigur á ÍBV í gær og þá tók Stjarnan á móti Selfossi í kvöld.

Selfyssingar brutu ísinn þegar Dagný Brynjarsdóttir skoraði úr vítaspyrnu eftir rúmlega stundarfjórðungsleik en Magdalena Anna Reimus tvöfaldaði forystuna á 25. Mínútu. Aðeins þremur mínútum eftir að skoraði Dagný sitt annað mark og þriðja mark Selfyssinga sem fóru með 3-0 forystu í leikhléið. Magdalena Anna skoraði sitt annað mark um miðjan síðari hálfleik áður en Snædís María Jörundsdóttir skoraði sárabótamark fyrir Stjörnuna undir lok leiks.

Selfoss vann leikinn 4-1 og með sigrinum jafnar liðið Stjörnuna að stigum í töflunni. Bæði eru með sex stig eftir fjóra leiki, líkt og Þór/KA sem hefur þó leikið einum leik færra. Valur er á toppi deildarinnar með fullt hús, tólf stig eftir fjóra leiki en Breiðablik er í öðru sæti, einnig með fullt hús, níu stig eftir þrjá leiki.