Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Stjórnlaus bátur hafnaði upp í fjöru á Þórshöfn

01.07.2020 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd: Þorsteinn Ægir Egilsson
Það óhapp varð á Þórshöfn um hádegisbilið í dag að bátur sem var að leggja frá bryggju fór skyndilega á fulla ferð og hafnaði upp í fjöru. Hann rakst utan í tvo aðra báta í höfninni og skemmdust þeir nokkuð.

Eigandinn náði að stökkva yfir í annan þeirra áður en hans bátur hafnaði mannlaus í fjörunni. Hann er töluvert skemmdur. Að sögn hafnarstarfsmanns á Þórshöfn er ljóst að eitthvað hefur bilað í vélbúnaði bátsins þannig að ekki varð við neitt ráðið.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorsteinn Ægir Egilsson
Báturinn í fjörunni við Þórshöfn

Báturinn er enn í fjörunni og björgunarsveitarmenn og fleiri undirbúa að ná honum á flot á flóði síðar í kvöld. Leggja þarf út um 200 metra langan spotta af bryggjunni yfir í bátinn og freista þess síðan að draga hann á flot með hjólaskóflu. Þá eru félagar í björgunarsveitinni Hafliða til taks á gúmmíbát til að stýra bátnum rétta leið að bryggju.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV