Sérsveitarhermenn tengdir hægri öfgasinnum

01.07.2020 - 05:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Algjör yfirhalning verður gerð á KSK sérsveit þýska hersins, eftir að fjöldi hermanna innan hennar reyndist tengdur hægri sinnuðum öfgasamtökum. Að sögn þýska dagblaðsins Die Welt verður ein af fjórum deildum sérsveitarinnar leyst upp. Alls eiga 70 hermenn eftir að finna fyrir áhrifum breytinganna.

KSK sveitin var stofnuð árið 1996. Hún hefur einblínt á aðgerðir gegn hryðjuverkum og tekið þátt í að bjarga gíslum frá átakasvæðum. Sveitin hefur tekið þátt í aðgerðum í Afganistan og á Balkanskaga, en aðgerðunum er öllum haldið leyndum.

Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra, sagði í samtali við Süddeutsche Zeitung að KSK hafi nánast orðið að sjálfstæðri herdeild og þar hafi þróast eitruð leiðtogamenning. Því geti sérsveitin ekki haldið áfram störfum í sömu myndi. Yfirhershöfðinginn Markus Kreitmayr er talinn eiga eftir að halda stöðu sinni, en sveitin á ekki eftir að taka þátt í neinum verkefnum á vegum þýska hersins fyrr en að yfirhalningunni lokinni.

Samkvæmt rannsóknarskýrslu innra eftirlits þýska hersins sem gefin var út í janúar eru um 500 þýskir hermenn til rannsóknar vegna tengsla við hægri öfgasinna. Þar af eru um 20 í KSK sérsveitinni. Auk þess hafa 48 þúsund byssuskot og 62 kíló af sprengiefni horfið úr geymslum KSK.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi