Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samþykkja bann við plaströrum og einnota hnífapörum

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Bannað verður að setja plasthnífapör, diska, sogrör og eyrnapinna úr plasti á markað hér á landi frá og með 3. júlí á næsta ári. Einnig er lagt bann við matar- og drykkjarílátum úr frauðplasti.

Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þessa efnis var samþykkt á Alþingi í vikubyrjun.

Meðal þeirra einnota plastmuna sem bannað verður að setja á markað eru bómullarpinnar úr plasti, hnífapör, diskar, sogrör, hræripinnar og blöðrustangir. 

Matvöruverslunum, veitinga- og skyndibitastöðum verður enn fremur óheimilt að afhenda matvæli og drykki í einnota plastílátum án þess að taka greiðslu fyrir ílátið.

Eina undantekningin á einnota plastvörunum, er ef þær flokkast sem lækningatæki.

Þá er skilyrðislaust bann sett við því að setja á markað vörur úr oxó-plasti, sem er niðurbrjótanlegt með oxun. Vörur úr slíku plasti, einkum ákveðnar gerðir plastpoka, hafa rutt sér til rúms á markaði síðustu ár. Að því er kemur fram í tilkynningu umhverfis- og auðlindaráðuneytsins þá er Oxó-plast  skaðlegt heilsu og umhverfi, þar sem það sundrast í öragnir og veldur vaxandi vanda víða um heim.

Loks verður skyldað að merkja einnota plastvörur þannig að á þeim standi hvernig eigi að meðhöndla þær eftir notkun, sem og þau neikvæðu áhrif sem varan hefur ef hún berst út í umhverfið. Meðal þess varnings sem þarf að bera þessa merkingu eru ýmsar tíðavörur, blautklútar, ýmsar tóbaksvörur og plastbollar.