Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Samkomubann á Vesturbakkanum vegna veirunnar

01.07.2020 - 17:53
epa08430043 Palestinian security forces guard a checkpoint at an access road  in the village of Beit Aula, north of the West Bank city of Hebron, 18 May 2020, amid the ongoing coronavirus COVID-19 pandemic. Countries around the world are taking measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/ABED AL HASHLAMOUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Heilbrigðisráðuneyti Palestínumanna á Vesturbakkanum tilkynnti í dag um að minnsta kosti fimm sólarhringa samkomubann til að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar. Smitum hefur fjölgað hratt síðustu daga.

Útgöngubannið gengur í gildi á föstudagsmorgun og varir í fimm sólarhringa, til miðvikudagsmorguns. Bannið verður framlengt ef heilbrigðisyfirvöld telja það nauðsynlegt. Einungis matvöruverslanir, bakarí og lyfjabúðir mega hafa opið frá átta að morgni til átta að kvöldi. Þeir sem brjóta gegn banninu mega búast við refsingu.

Kórónuveiran hefur breiðst hratt út í Miðausturlöndum að undanförnu, þar á meðal Ísrael og á herteknu svæðunum í Palestínu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varaði í dag við hvers konar tilslökun í heimshlutanum. Slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar. Í Palestínu hafa greind smit meira en tvöfaldast síðustu viku.

Ísraelsk stjórnvöld hugðust í dag hefja vinnu við að innlima svæði á Vesturbakkanum. Þær fyrirætlanir hafa mætt mikilli andstöðu víða um heim. Í yfirlýsingu sem embætti forsætisráðherra sendi frá sér síðdegis segir að öllum ákvörðunum um innlimunina hafi verið frestað þar til í næstu viku. Benny Gantz, utanríkisráðherra Ísraels og tilvonandi forsætisráðherra, lýsti því yfir á mánudag að vinna við innlimunina yrði að bíða að sinni. Baráttan við kórónuveiruna ætti að hafa forgang í Ísrael.