Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rannsakar stöðu pólitískra fanga í Rússlandi

01.07.2020 - 22:11
Evrópuráðsþingið hefur falið Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata, að vinna skýrslu og þingsályktun um málefni pólitískra fanga í Rússlandi. Mannréttindasamtök telja að þar séu landi séu um þrjú hundruð manns í haldi vegna skoðana sinna.

Pólitískur fangi telst sá sem er fangelsaður fyrir að hafa nýtt sér þau réttindi sem mannréttindasáttmáli Evrópu kveður á um, samkvæmt skilgreiningu Evrópuráðsins. Þau geta til dæmis tengst tjáningarfrelsi eða frelsi til að safnast saman. „Þegar yfirvöld brjóta á réttindum fólk fyrir það að, til dæmis segja hluti sem að valdhöfum mislíkar, að refsa fólki fyrir að tjá sig á hátt sem að valdhöfum mislíkar, að þá er strax komin upp grunsemd um hvort um pólitískan fanga sé að ræða, það er að segja ef viðkomandi er settur í fangelsi fyrir skoðanir sínar,“ segir Þórhildur Sunna. 

Sjá einnig: MDE: Yfirvöld brutu gegn Navalny

47 ríki eiga aðild að Evrópuráðinu, sem starfar sjálfstætt og alveg óháð Evrópusambandinu. Þórhildur Sunna er einn þeirra íslensku þingmanna sem eiga sæti á þingi ráðsins. Nefnd Evrópuráðsþingsins hefur falið henni að rannsaka málefni pólitískra fanga í Rússlandi, hvernig mál þeirra falli undir skilgreiningu Evrópuráðsins á pólitískum föngum og hvaða aðgerðir ráðið eigi að leggja til.

Mannréttindasamtök telja að pólitískir fangar séu um 300

„Staðan í Rússlandi er auðvitað þannig að mannréttindasamtök þarlendis hafa komið með mjög sterkar vísbendingar um að þar séu allt að þrjú hundruð manns sem að gætu mögulega fallið undir þessa skilgreiningu að vera pólitískur fangi, segir hún.

Handtaka andstæðinga rússneskra stjórnvalda hefur ratað í fréttir undanfarin ár. Má þar nefna Égor Zhukov, sem handtekinn var fyrir mótmæli í aðdraganda borgarstjórnarkosninga í Moskvu síðasta sumar. Hann fékk þriggja ára dóm en var látinn laus eftir greiðslu tryggingar.

Þá var leikstjórinn Oleg Sentsov dæmdur til tuttugu ára fangelsisvistar. Honum var gefið að sök að hafa skipulagt hryðjuverk á Krímskaga. Hann hafði mótmælt innlimum skagans í Rússland. Hann sat inni í fjögur ár en var látinn laus við fangaskipti rússneskra og úkraínskra stjórnvalda í fyrra

epa04864819 Ukrainian film director Oleg Sentsov and activist of  Ukrainian "Maidan" revolution looks from a court cage during a trial in Rostov-on-Don military court, 29 July 2015. Oleg Sentsov was arrested in Crimea 11 May 2014 by Russian
Oleg Sentsov í réttarsal í Rostov í júlí 2015. Mynd: EPA
Oleg Sentsov, kvikmyndagerðarmaður, sem mótmælti innlimun Rússa á Krímskaga.

Ætlar til Rússlands í vettvangsferð

Við gerð skýrslunnar ætlar Þórhildur Sunna að ræða við ýmsa sérfræðinga í málaflokknum. Þá áætlar hún að fara til Rússlands í vettvangsferð í haust, líklega í október. Það ræðst þó af því hvernig staðan verður með tilliti til COVID-19 faraldursins, sem enn er skæður í Rússlandi. 

Þórhildur Sunna segir að skýrslur sem þessar á vegum Evrópuráðsþingsins séu unnar í miklu samstarfi við þau lönd sem eru til umfjöllunar, að sögn Þórhildar Sunnu. Ferðin er því háð samvinnu við rússnesk stjórnvöld sem koma að gerð dagskrárinnar þar í landi. 

Ferlið frá því ákveðið að gera skýrslu sem þessa þar til að hún er tilbúin getur tekið eitt til tvö ár. Þegar rannsókn Þórhildar Sunnu lýkur fer skýrslan fyrir nefnd á þingi Evrópuráðsins þar sem hægt verður að gera breytingartillögur. Eftir það fer skýrslan fyrir þingið sjálft til samþykktar. Að því loknu yrði hún gefin út sem skýrsla ráðsins um stöðu mála og sem þingsályktun.