Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kreppuáhrif ekki enn komin fram

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hrun ferðaþjónustunnar blasir við og samdráttar gætir í öllum atvinnugreinum samkvæmt greiningu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Áhrifa COVID-19-farsóttarinnar á fjármálastöðugleika gætir þó að litlu leyti enn sem komið er. Þá er spáð verulegri virðisrýrnun hjá bönkunum sem hefur ekki enn komið fram.

Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, kynnti ritið í dag ásamt Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra og Gunnari Jakobssyni varaseðlabankastjóra. 

Lausafjárstaða bankanna er sterk

Lausafjárhlutfall allra bankanna er vel yfir lágmarkskröfum Seðlabankans og fór hækkandi frá áramótum samhliða aðgerðum bankans. Lausafjáreignir hafa einnig hækkað í krónum en forðinn hefur færst að hluta yfir í skuldabréf eftir að hætt var með mánaðarleg bundin innlán í Seðlabankanum. Verulegri virðisrýrnun er spáð hjá bönkunum. Hún hefur þó ekki enn komið fram. Haukur segir að eiginfjárstaða bankanna sé á sama tíma sterk og þeir eigi að vera í stakk búnir til að standa af sér mikið áfall.  Lágvaxtaumhverfið gæti ýtt undir áhættusækni og aukið skuldsetningu. 

Bankinn greinir ekki vísbendingar um fjármagnsflótta en krónan hefur veikst um 11prósent frá áramótum.

Atvinnuleysi spáð hámarki í ár 7,4-10 prósent

Haukur segir að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu hverfi á braut á næstu misserum að óbreyttu og offramboð verði á gistirýmum. Viðbúið sé að atvinnuleysi nái áður óþekktum hæðum á árinu, verði 7,4-10 prósent, þar sem vinnuaflsfrekar atvinnugreinar verði fyrir miklum áhrifum af farsóttinni.

Bankarnir reknir með tapi í tvö ár

Neikvæðasta spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að virðisrýrnun útlánasafnsins verði sjö prósent eða um 210 milljarðar króna samanborið við 0,3-0,5 prósenta árlega virðisrýrnun í viðskiptaáætlun bankanna. 

Aðgerðir bankanna eiga þó að milda áhrifin talsvert frá því sem greining Seðlabankans gefur til kynna. Sterkur efnahagsreikningur bankanna eigi að veita þeim svigrúm til afskrifta og til að viðhalda útlánagetu í gegnum efnahagsáfallið. 

Meiri samkeppni á fjármagnsmarkaði

„Fjármagnsmarkaðurinn er í miklu meiri samkeppni og við sjáum að vaxtahækkanir seðlabankans skila sér mjög hratt til heimilanna vegna þessa,“ sagði Ásgeir Jónsson eftir að opnað var fyrir spurningar. 

Það sé ákveðin hætta sem mögulega þurfi að athuga betur varðandi greiðslumat, í ljósi nýrra tegunda lána. Heimili þurfi að vera meðvituð um áhættuna af því að taka óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum í stað verðtryggðra.

„Umræðan hefur verið svolítið mikið eins og verðtryggð lán hafi verið algert eitur og allir öruggir ef þeir taka ekki verðtryggð lán en það er bara ekki rétt,“ sagði Ásgeir.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV