Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Johnson biður Ísraela að hætta við innlimun

01.07.2020 - 12:09
epa08520119 British Prime Minister Boris Johnson leaves 10 Downing Street to attend Prime Ministers Questions (PMQs) at the Houses of Parliament, Central London, Britain, 01 July 2020.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, biður Ísraela að hætta við að innlima landtökubyggðir á Vesturbakkanum. Ísraelsk stjórnvöld ætluðu að hefja innlimun á hluta Vesturbakkans í dag.

Johnson skrifaði skoðanagrein sem var birt á hebresku í vinsælu ísraelsku dagblaði í dag. Þar segir hann að Bretland ætli ekki að viðurkenna breytingar á landamærum Ísraels og Palestínu nema samþykki beggja ríkja liggi fyrir. Innlimun væri brot á alþjóðalögum, skrifar Johnson, en landtökubyggðir Ísraela teljast ólöglegar samkvæmt þeim.

Benny Gantz vill fresta 

Í vor tilkynnti Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, að hann hyggðist hefja innlimun landtökubyggða í dag. En á mánudag sagðist Benny Gantz varnarmálaráðherra vera þeirrar skoðunar að það ætti að fresta því þar til búið væri að ná tökum á COVID-19 faraldrinum. Vesturbakkinn hefur verið undir hernámi Ísraela frá því í sex daga stríðinu 1967 og síðan þá hafa stjórnvöld í Ísrael reist landtökubyggðir á víð og dreif um landsvæðið, iðulega á hæðum í kringum palestínskar borgir.

Samkvæmt friðaráætlun Bandaríkjaforseta, sem var kynnt með viðhöfn fyrr á þessu ári, er innlimun á þessum svæðum viðurkennd. Netanjahú sagðist í gær eiga í viðræðum við Bandaríkin um það, sem haldi áfram á næstu dögum. Þá var haft eftir utanríkisráðherra Ísraels fyrr í dag að þetta væri ekki aðkallandi verkefni. Flest bendir því til þess að áformunum verði frestað en næstu skref eru enn óljós. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Nili landtökubyggðin er á Vesturbakkanum, nærri palestínska þorpinu Deir Qaddis.