Geyma vindorku á fljótandi formi
Fyrirtækið hefur staðið að rekstri tilraunaverksmiðju í Köln sem reist var við orkuver RWE. Á síðastliðnu ári var sýnt fram á að nýta má tæknilausn CRI til að umbreyta vind- og sólarorku ásamt fönguðum koltvísýringi jafnóðum yfir á fljótandi form. Afurðin nefnist þá rafmetanól (e-methanol) sem auðvelt er að geyma, flytja og nýta með margvíslegum hætti. Tilraunaverkefninu, MefCO2, sem staðið hefur frá 2015 er nú lokið.
Niðurstöður óháðra matsaðila á vegum Evrópusambandsins eru þær að verkefnið hafi aukið skilning á orkugeymslu í efnaformi og opni fyrir frekari tækifæri til nýtingar á tækninni á stærri skala. Í kjölfar þess hefur framkvæmdastjórn ESB útnefnt fyrirtækið sem Lykilfrumkvöðul vegna framlags þess í verkefninu.
„Umbreyting umframorku í rafeldsneyti eins og metanól sem auðvelt er að geyma og flytja með innviðum sem þegar eru til staðar er ein lykilforsenda áframhaldandi vaxtarframleiðslu á grænni raforku“ sagði Ingólfur Guðmundsson, forstjóri CRI. „Jákvæðar niðurstöður MefCO2 verkefnisins eru mikilvæg staðfesting á leiðandi stöðu CRI á sviði rafeldsneytis og endurnýtingu koltvísýrings.“
Framleiða fyrir Evrópu og Kína
Carbon Recycling International hefur byggt og starfrækt einu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum. Koltvísýringi og vetni, sem er rafgreint úr vatni með grænni orku, er umbreytt í bæði endurnýjanlegt eldsneyti fyrir bíla eða skip og umhverfisvænt hráefni fyrir efnaiðnað.
Á grundvelli þeirrar tæknilausnar sem þróuð var og reynd fyrst hér á landi, hefur fyrirtækið sótt í vaxandi mæli á erlenda markaði, með áherslu á Evrópu og Kína, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.