Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hundruð repúblikana ætla að styðja Biden

Democratic presidential candidate, former Vice President Joe Biden speaks during a roundtable on economic reopening with community members, Thursday, June 11, 2020, in Philadelphia. (AP Photo/Matt Slocum)
Joe Biden. Mynd: AP
Hundruð embættismanna og ráðherra sem störfuðu fyrir bandaísk stjórnvöld í stjórnartíð George W. Bush ætla að lýsa yfir stuðningi við Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demókrata.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu og segir þetta vera nýjustu viðbótina í hóp valdamikilla repúblikana sem lýsa yfir andstöðu við endurkjör Donald Trumps.

Hópurinn hefur sett á laggirnar sérstaka aðgerðastjórn sem nefnist 43 Alumni for Biden, að því er Reuters hefur eftir þremur skipuleggjendum hópsins. Nafnið vísar til þess að Bush var 43. forseti Bandaríkjanna.

Hópurinn ætlar að setja vefsíðu og Facebook-síðu í loftið í dag, en þar verða birt myndbönd frá valdamiklum repúblikönum sem lýsa yfir stuðningi við Biden. Eins ætlar hópurinn að reyna að virkja kjósendur í þeim ríkjum þar sem baráttan um atkvæðin verður hvað hörðust. 

Reuters segir þetta enn eitt dæmi að gjáin milli flokks og forseta fari breikkandi og það hafi ekki hvað síst gert í kjölfar viðbragða Trumps við kórónuveirufaraldrinum og mótmælum gegn kynþáttafordómum og ofbeldi lögreglumanna í garð svartra Bandaríkjamanna.

„Við vitum hvað er eðlilegt og hvað er óvenjulegt og það sem við sjáum nú er verulega óvenjulegt. Forsetinn er í hættu,“ segir Jennifer Millikin, sem er í hópi skipuleggjenda Alumni 43. Hún vann fyrir framboð Bush fyrir forsetakosningarnar 2004. 

Hinir tveir skipuleggjendurnir sem Reuters ræddi við eru Kristopher Purcell, sem starfaði á fjölmiðlaskrifstofu Hvíta hússins í stjórnartíð Bush og Karen Kirksey sem vann fyrir framboð Bush vegna kosninganna árið 2000 og svo síðar fyrir landbúnaðar- og atvinnuvegaráðuneytið.

Millikin segir ekki tímabært að nefna á nafn alla þá sem tilheyra hópnum, né þá sem styrkja hann. Slíkan lista þarf þó að afhenda yfirkjörstjórn fyrir lok september. 

Þó stefna Bidens sé ekki öllum liðsmanna hópsins að skapi telja þeir engu að síður Biden nógu ráðvandan til að takast á við þann vanda sem Bandaríkin standa frammi fyrir.

„Í nóvember þá munum við velja landið fram yfir flokkinn,“ sagði Purcell. „Við höfum trú á að stjórn Biden muni fylgja lögum og endurvekja virðingu og heilindi í Hvíta húsinu.“

Bush hefur verið tilkynnt um hópinn en að sögn Millikin hefur forsetinn fyrrverandi ekki látið í ljós skoðun sína á málinu. Freddy Ford, talsmaður Bush, segir hann hættan störfum og hann muni ekki hafa afskipti af kosningunum.

Reuters segir Bush njóta virðingar margra hófsamra repúblikana og hlaut hann lof fyrir að segja lát George Floyd af hendi lögreglumanns í Minneapolis vera átakanlegan brest og fyrir að hvetja til þess að hlustað yrði á mótmælendur.

Þá hafði hann fyrr á þessu ári sent frá sér myndband þar sem hann hvatti Bandaríkjamenn til að vera samstillta í baráttunni gegn kórónuveirunni.