Ellefu hundruð inn á Ísland.is á hverri sekúndu

01.07.2020 - 16:24
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Í morgun var opnað fyrir umsóknir um stafræn ökuskírteini á vefnum Ísland.is. Um tólf þúsund hafa nú þegar fengið ökuskírteini, en vefurinn hefur legið niðri hluta dags vegna álags.

Milli klukkan 13:00 og 15:00 í dag reyndu ellefu hundruð að sækja um stafrænt ökuskírteini hverja sekúndu og fyrstu tíu mínúturnar fengu um tvö þúsund manns ökuskírteini í símann. Þetta segir Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands sem heldur úti vefnum Ísland.is.

Nú hafa tólf þúsund Íslendingar fengið stafrænt ökuskírteini og Vigdís minnir á að stafræn ökuskírteini bíði allra sem vilja og eiga rétt á.

Hægt að nálgast ökuskírteini á Ísland.is

Hægt er að nálgast ökuskírteini á Ísland.is, með rafrænum skilríkjum. Þau gilda bæði fyrir Android- og iOS-stýrikerfi og verða jafngild hefðbundnum ökuskírteinum á Íslandi.  

Á vef Stjórnarráðsins eru gefnar eftirfarandi leiðbeiningar: 

Hvernig sæki ég stafrænt ökuskírteini?

  • Sótt er um stafræn ökuskírteini á vefnum Ísland.is þar sem notendur auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Með samþykki notenda fer sjálfvirkt umsóknarferli í gang og  samstundis birtist tengill til að sækja skírteinið í símann.
  • Notendum Android-síma er bent á að sækja veski (e. Wallets) í símann áður stafrænu ökuskírteini er hlaðið niður.
  • Þeir sem hafa ekki endurnýjað ökuskírteini sín frá því fyrir árið 1998 þurfa að endurnýja þau hjá sýslumanni til að geta fengið stafrænt ökuskírteini í símann.
  • Einungis er hægt að hafa ökuskírteinið í einu símtæki. Ef það er sett upp á öðrum síma afvirkjast það í fyrsta tækinu.
  • Ökuskírteinin gilda aðeins á Íslandi.
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi