Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einungis 15 fálkapör komu upp ungum í ár

01.07.2020 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur K. Nielsen - Náttúrufræðistofnun Íslands
Afkoma og frjósemi fálka er mjög lítil í ár. Hún hefur einungis einu sinni áður verið minni frá því að farið var að fylgjast með fálkanum fyrir fjörutíu árum. Fimmtán af 55 pörum komu upp ungum á Norðausturlandi, segir Ólafur K Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. 

Mjög lítil frjósemi

Ólafur hefur heimsótt hvert einasta fálkaóðal í Norður- og Suður-Þingeyjarsýslum í fjörutíu ár. Hann var að koma úr árlegri ferð sinni um Norðausturland þar sem eru tæplega 85 fálkaóðöl. Markmiðið er að meta stofninn og kanna frjósemi og fæðusamsetningu.

„Frjósemin er mjög léleg. Það er tiltölulega lítill hluti paranna sem reyndi að verpa og enn lægra hlutfall sem kom raunverulega upp ungum. Ætli séu ekki eitthvað um 55 óðöl á rannsóknarsvæðinu sem eru í ábúð þessi árin en þetta voru 15 pör sem komu upp ungum.“ 
 
Einungis einu sinni áður, síðan farið var að fylgjast með óðölunum, hefur viðkoman verið lakari. Það var vorið 1983 og þá komu 11 pör upp ungum. Stofnstærðin var svipuð og nú. 

Rjúpnaleysi og slæmt tíðarfar

„Fyrir tveimur árum sáum við einhverja bestu viðkomu sem við höfum nokkurn tímann séð og núna þessum árum seinna sjáum við einhverja lökustu viðkomuna. Þetta er bara líf fálkans“  
 
Rjúpan er helsta fæða fálkans en í ár varð mikið fall í rjúpnastofninum, sem minnkaði um helming milli ára. Fálkinn er auk þess mjög viðkvæmur fyrir tíðarfari og byrjaði seint að verpa.
 
„Núna fer þetta saman, rjúpnaleysi og slæmt tíðarfar, og þá er þetta útkoman.