Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bandaríkin kaupa upp remdesivir-birgðir

01.07.2020 - 04:40
epa08508728 An employee wears a face mask and holds up a box of remdesivir while posing for a photograph at the laboratories of the Eva Pharma company in Cairo, Egypt, 25 June 2020. The Egyptian drugmaker has reached a landmark deal with US company Gilead Sciences Inc. licensing the former to manufacture Gilead's antiviral drug remdesivir ? an experimental treatment for patients suffering from the pandemic COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus ? and distribute it in 127 countries.  EPA-EFE/MOHAMED HOSSAM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn keypti allar birgðir af lyfinu remdesivir sem til eru í heiminum. Það þýðir að næstu þrjá mánuði getur ekkert ríki fjárfest í lyfinu. Lyfið var framleitt gegn lifrarbólgu-C og var einnig notað gegn ebólu en lyfið hefur einnig hjálpað COVID-19 sjúklingum að jafna sig hraðar af sjúkdómnum.

Bandaríkjastjórn keypti rúmlega hálfa milljón skammta af lyfinu frá bandaríska lyfjaframleiðandanum Gilead. Það er öll framleiðsla þeirra í júlí, og 90 prósent framleiðslunnar í ágúst og september. 

Faraldurinn enn á uppleið í Bandaríkjunum

Greint var frá fjárfestingunni um það leyti sem bandarísk heilbrigðisyfirvöld sögðu faraldurinn orðinn nánast stjórnlausan í landinu. Í gær höfðu yfir 46 þúsund greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 síðasta sólarhringinn í Bandaríkjunum, sem var nýtt met yfir dagleg tilfelli. Yfir 2,7 milljónir hafa greinst smitaðar í Bandaríkjunum og fleiri en 130 þúsund látið lífið frá því faraldurinn hófst í lok febrúar. Anthony Fauci, yfirmaður ofnæmis- og sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna, segir það ekki koma sér á óvart ef dagleg tilfelli verða yfir 100 þúsund ef ekki takist að snúa þessari þróun við. Hann þorði ekki að geta sér til um hversu margir eigi eftir að deyja af völdum sjúkdómsins.

Á meðan mörg ríki eru nokkurn veginn að ná tökum á faraldrinum og byrjuð að aflétta ýmsum hömlum, hafa nokkur ríki í Bandaríkjunum orðið að draga til baka ákvarðanir um opnun ýmissar þjónustu. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á Twitter í gærkvöld að hann verði sífellt reiðari í garð Kína eftir því sem hann fylgist með faraldrinum breiðast út um heiminn.