Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

33 lagabálkar felldir brott og 5 stjórnsýslunefndir

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þrjátíu og þrír lagabálkar eru felldir brott í heild sinni með samþykkt Alþingis á tveimur frumvörpum Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um einföldun regluverks.

Einnig eru úrelt bráðabirgðaákvæði felld brott, fimm stjórnsýslunefndir lagðar niður og  stjórnsýsla og regluverk á málefnasviðum ráðherra einfölduð töluvert. Haft er eftir Kristjáni Þór í tilkynningu að með einföldu og skilvirku eftirliti verði samkeppnishæfara umhverfi fyrir fyrirtæki, neytendum til hagsbóta. 
Fyrr í vetur felldi ráðherra brott rúmlega tólf hundruð reglugerðir og tvo lagabálka auk þess sem regluverk um matvælakeðjuna var einfaldað. 

Eftirfarandi breytingar voru gerðar:

 

 • 33 lagabálkar felldir brott í heild sinni ásamt úreltum bráðabirgðaákvæðum.
 • Úrskurðarnefndir um ólögmætan sjávarafla, yrkisréttarnefnd, sauðfjársjúkdómanefnd, ullarmatsnefnd og gærumatsnefnd felldar niður.
 • Tiltekin starfsleyfi matvælafyrirtækja verða gefin út án tímabindingar.
 • Milliganga ráðuneytisins og staðfestingar ráðherra afnumdar.
 • Stjórnsýsla skyndilokana einfölduð.
 • Dregið úr skýrsluskilum hjá fiskeldisfyrirtækjum sem framleiða minna en 20 tonn á ári.
 • Skylda Fiskistofu til að leggja til sérstakar afladagbækur felld brott.
 • Starfsleyfisskylda matvælafyrirtækja sem starfrækja fiskeldisstöðvar, og eru með gilt rekstrarleyfi,  vegna frumframleiðslu felld brott.
 • Tilkynningarskyldu innflytjenda og framleiðenda fóðurs innan EES-svæðisins vegna tiltekins fóðurs felld brott.
 • Heimild ráðherra til að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf svo og til hrognkelsaveiða í net felld brott. Þess í stað er lagt til að fjallað verði um slíkar veiðar í reglugerð.
 • Stjórnsýslumeðferð veiðitækja sem notuð hafa verið erlendis einfölduð.
 • Skipunartími verðlagsnefndar búvara lengdur.