Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vill efla heimildir til að beita viðurlögum

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Velferðarnefnd Alþingis kom sérstaklega saman í morgun til að ræða aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi, í ljósi eldsvoðans á Bræðraborgarstíg síðastliðinn fimmtudag. Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, segir að efla þurfi heimildir verkalýðsfélaga og eftirlitsstofnana til að koma í veg fyrir hörmungar sem þessar.

Þurfi að uppræta skipulagða brotastarfsemi á vinnumarkaði

„Við þurfum auðvitað fyrst og fremst að uppræta skipulagða og einbeitta brotastarfsemi á vinnumarkaði. Það er auðvitað það sem stendur upp úr eftir þennan harmleik og þennan hryllilega atburð,“ sagði Helga Vala að loknum fundi nefndarinnar í hádeginu í dag. 

Aðspurð hvort pólitíkin þurfi ekki að bregðast hart við segir hún mikilvægt að efla heimildir verkalýðsfélaga til að beita viðurlögum og efla eftirlitsheimildir stofnana. Tryggja þurfi að „við séum ekki að borga fólki langt undir taxta og koma því fyrir í ónýtu húsnæði“.

„Ýmislegt í regluverkinu sem við getum gert“

Ýmsir gestir voru kallaðir fyrir nefndina. Þeirra á meðal voru félagsmálaráðherra, borgarstjórinn í Reykjavík, bæjarstjórarnir í Kópavogi og Hafnarfirði, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og fulltrúar frá ASÍ og Eflingu.

„Við vorum að leita upplýsinga um hvað við getum gert til að bregðast við því ástandi sem þarna birtist okkur svona gróflega. Það er ýmislegt i regluverkinu sem við getum gert. Við erum löggjafinn og við getum breytt til dæmis aðkomu slökkviliðs og möguleikum slökkviliðs á að fara inn í íbúðarhúsnæði,“ segir Helga Vala. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV