Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Útgöngubann hert að nýju í Leicester

30.06.2020 - 08:32
Erlent · Bretland · COVID-19 · England · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Útgöngubann hefur verið hert að nýju í Leicester á Englandi. COVID-19 smitum hefur fjölgað mjög í borginni undanfarið og um tíu prósent af öllum greindum smitum í Englandi síðustu viku greindust í Leicester.

Alls hafa ríflega 3.200 tilfelli greinst í borginni frá því faraldurinn braust út. Nærri þúsund þeirra greindust á síðustu tveimur vikum. Í dag var skólum lokað í borginni ásamt öllum verslunum fyrir utan þær sem selja nauðsynjavörur. Útgöngubannið gildir í tvær vikur hið minnsta.

Óvenjumörg börn hafa smitast

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, var til viðtals í morgunþætti BBC þar sem hann sagði að óvanalega mikill fjöldi barna virðist hafa smitast í Leicester, þess vegna hefði verið ákveðið að loka skólum borginni. Hann áréttaði að börn væru ólíklegri til þess að verða veik af veirunni en gætu þó verið smitberar. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV