Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Tímamót í sögu geðheilbrigðismála“

Mynd með færslu
Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Mynd: RÚV
Alþingi var frestað á þriðja tímanum í nótt og kemur það aftur saman í lok ágúst. Fjöldi frumvarpa varð að lögum, þar á meðal frumvarp 23 þingmanna úr öllum flokkum um að sálfræðiþjónusta falli undir Sjúkratryggingar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir að þetta sé mikilvægt skref í sögu geðheilbrigðismála. „Þetta skiptir miklu máli. Á síðustu árum er búið að viðurkenna að stór hluti þjóðarinnar glímir við einhvers konar geðrænar áskoranir einhvers staðar á lífsleiðinni. Samkvæmt heilsugæslunni eru það um 30% þeirra sem koma á heilsugæsluna.“ 

Skref til bættra lífsskilyrða

Grímur segir að með þessari lagabreytingu aukist líkurnar á því að fólk leiti sér sálfræðiaðstoðar. Hver tími hjá sálfræðingi kosti að jafnaði 17.500 krónur. „Þannig að ef þetta gengur eftir og þetta verður fjármagnað að fullu sem ég treysti að þingið muni gera þá er þetta mikið skref til bættra lífsskilyrða okkar hér.  Þetta er búið að liggja fyrir lengi, farið fyrir mörg þing og það að þetta sé komið í gegn;  að sjálfsögðu eru þetta tímamót,“ segir Grímur.

Í áliti velferðarnefndar Alþingis um frumvarpið kemur fram að erfitt sé að áætla kostnaðinn við þessa breytingu. Þörfin fyrir sálfræðiþjónustu hér á landi hafi ekki verið metin og því erfitt að átta sig á umfanginu og kostnaði við hana. Þá megi gera ráð fyrir að til lengri tíma spari ríkissjóður háar fjárhæðir meðal annars vegna kostnaðar af andlegri örorku.

Uppfært klukkan 13:21: Sálfræðingafélag Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem samþykkt frumvarpsins er fagnað. Þar segir að bætt aðgengi að sálfræðiþjónustu hafi verið baráttumál félagsins í áratugi. „Telur Sálfræðingafélagið að verið sé að stíga mikilvægt skref í að auka aðgengi almennings, óháð efnahag, að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Með því er verið að fjárfesta í bættri geðheilsu almennings sem mun borga sig fyrir þjóðarbúið til lengri tíma litið,“ segir í tilkynningunni.