Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þreyttir farþegar komnir í land

30.06.2020 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Ferjan Baldur liggur við bryggju í Flatey. Ferjan bilaði á leið út í eyna í gær. Hundrað og fjörutíu farþegar voru um borð. Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, segir að búið sé að finna varahluti í Baldur sem berist fljótlega vestur. 

Þreyttir farþegar komnir í land 

Að sögn Gunnlaugs fór Særún, minni bátur Sæferða, með viðgerðarmenn út í Flatey í gær og þaðan var siglt með farþega í land seint í nótt. Sumir fóru yfir á Brjánslæk og aðrir aftur í Stykkishólm. Flestir farþegarnir eru því komnir í land en bílarnir þeirra eru enn um borð í Baldri.  

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV

„Það voru þreyttir farþegar sem komu í land í gær. Og auðvitað leiðinlegt. Þarna voru fjölskyldur sem voru að fara í frí á hina stórkostlegu Vestfirði,“ segir Gunnlaugur. Allir hafi fengið gistingu sem þess óskuðu og fyrirtækið geri það sem það geti til að koma til móts við farþegana. 

Í dag stendur til að senda skip úr Grundarfirði til að taka Baldur í tog og sigla með hann í Stykkishólm. 

Vatni dælt úr Baldri í nótt 

Baldur gegnir mikilvægu hlutverki við vatnsveitu í Flatey. Gunnlaugur segir að í nótt hafi tekist að dæla vatni úr Baldri og sennilega séu vatnsbirgðir í eynni fyrir næstu sjö til tíu daga.   

„Þannig að það er alveg full birgðastaða eins og staðan er núna,“ segir Gunnlaugur.