Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þingsalur sótthreinsaður eftir smitið í gær

30.06.2020 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra var á þingfundi í gær en í gær greindist eiginmaður hennar með kórónuveirusmit. Lilja reyndist ekki smituð í veiruprófi í gær. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að þegar fregnir hafi borist af málinu í gærkvöldi hafi verið gert hlé á þingfundi. Hann hafi þá átt fund með formönnum allra þingflokka þar sem málið var rætt. Skrifstofustjóri Alþingis hafi sett sig í samband við almannavarnir. Þá hafi þingsalurinn verið sótthreinsaður.

Þingfundi var frestað á þriðja tímanum í nótt og kemur Alþingi saman að nýju 27. ágúst. Smit eiginmanns ráðherra hafi ekki orðið til þess að þingmenn eða starfsmenn Alþingis hafi þurft að fara í sóttkví. Frá því faraldurinn braust úr hafa alls hafa sjö starfsmenn Alþingis smitast og einn þingmaður, Smári McCarthy, þingmaður Pírata.