Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er vandmeðfarið“

30.06.2020 - 17:20
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að nafnbirtingar fjölmiðla á einstaklingum sem smitast hafa af COVID-19 séu vandmeðfarnar. Hún telur að ekki sé hægt að fullyrða hvort slíkar nafnbirtingar feli í sér brot gegn persónuverndarlögum eða stjórnarskrárvörðum réttindum.

Á dögunum greindi fótbolti.net frá því að knattspyrnukona í meistaraflokki Breiðabliks hefði greinst með COVID-19. Allir leikmenn liðsins þurftu að fara í sóttkví auk leikmanna KR og Selfoss. Knattspyrnukonan var nafngreind í fréttinni og aðrir miðlar greindu frá nafni hennar í kjölfar birtingar fréttarinnar. Knattspyrnukonan hafði ekki greint frá smiti sínu opinberlega þegar fréttirnar birtust. 

Helga getur ekki tjáð sig um þetta mál beint. Hún fullyrðir þó að erfitt sé að segja til um hvort mál af þessum toga séu brot á persónuverndarlögum. Hún bendir á að tjáningarfrelsi ríki í landinu og að sum ákvæði persónuverndarlaga gildi ekki um fjölmiðla. 

Í 6. grein laganna segir nánar til tekið: „Að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar má víkja frá ákvæðum laga þessara og reglugerðarinnar í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta.“ Hún bætir við að heilbrigðisupplýsingar séu alla jafna mjög viðkvæmar. Í umfjöllun um slíkar upplýsingar þurfi alltaf að gæta meðalhófs og sanngirni. 

Helga segir að tjáningarfrelsið sé ein vandmeðförnustu réttindi sem fjölmiðlar fara með enda á einstaklingur sem fjallað er um rétt á friðhelgi einkalífs sem verndaður er í stjórnarskrá. Hér vegast því á tvenns konar stjórnarskrárvarin réttindi. „Þetta er vandmeðfarið og eitthvað sem dómstólar geta þurft að skera úr um á endanum,“ segir hún.

Aðspurð hvort mál knattspyrnukonunnar sé einsdæmi segir Helga að Persónuvernd hafi borist ýmislegt til eyrna frá því að COVID-faraldurinn hófst. „Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem nafn er birt í fjölmiðlum án þess að einstaklingurinn stígi fram sjálfur að því er við best vitum,“ segir hún.