Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það þurfti slys til að eitthvað yrði gert“

30.06.2020 - 19:14
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Ekki stendur til að skipta um verktaka við endurlagningu malbiks á Kjalarnesi þar sem tveir létust í umferðarslysi á sunnudag. Bifhjólafólk krefst þess að öryggi allra vegfarenda verði sett í forgang.

Bifhjólafólk kom saman í tugatali við höfuðstöðvar Vegagerðarinnar í dag vegna banaslyssins þar sem ökumaður og farþegi bifhjóls létust eftir árekstur við húsbíl. Í ljós hefur komið að nýtt malbik sem lagt var á vegarkaflann á fimmtudag var of hált og uppfyllti ekki kröfur. Upphaflega átti að mótmæla, en í staðinn var ákveðið að efna til samstöðufundar. 

„Við krefjumst breytinga. Við krefjumst þess að öryggi fólks á vegum úti verði í forgangi. Ekki bara fyrir okkur mótorhjólamenn heldur alla sem eru að ferðast um. Mig langar að biðja ykkur um einnar mínútu þögn í minningu fallinna félaga,“ sagði Jokka G. Birnudóttir, gjaldkeri Sniglanna, á samstöðufundinum.

„Við viljum gjarnan tala við alla sem eru notendur á samgöngukerfinu og hafa eitthvað við okkur að segja. Mér finnst vænt um að fá þau hér. Ég held að þetta verði til þess að opna augu okkar fyrir þeirra óskum,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Mynd: Andri Yrkill Valsson / RÚV fréttir

Viðbrögðin verið meiri en búist var við

Bifhjólasamtökin Sniglarnir funduðu með Vegagerðinni í gær og fá fund með samgönguráðherra á næstunni.

„Viðbrögðin við þessum atburði voru miklu meiri en við bjuggumst við. En mótorhjólafólk er hálf lamað yfir að það þurfti svona til. Það þurfti slys til að eitthvað yrði gert,“ sagði Þorgerður Guðmundsdóttir, formaður Sniglanna.

Loftorka sá um framkvæmdina á Kjalarnesi og sér einnig um að malbika kaflann á ný. Fleiri kaflar sem fyrirtækið malbikaði með sama efni frá Malbikunarmiðstöðinni Höfða eru undir eftirliti, meðal annars yfir Gullinbrú sem þegar er búið að fræsa upp.

Kom ekki til greina að skipta um verktaka

„Malbikið er skilgreint samkvæmt evrópskum staðli. Það er það malbik sem við erum að biðja um. Það var líka í fyrra tilfellinu. Þarna misferst eitthvað,“ sagði Bergþóra.

Kom til greina að skipta um verktaka?

„Það hefur ekki komið til greina. Auðvitað verða augun á þessu allan tímann. En þetta er reyndur verktaki og hann á að geta gert þetta,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.