Stefnir á sálfræði og að safna fyrir íbúð

Mynd:  / EPA

Stefnir á sálfræði og að safna fyrir íbúð

30.06.2020 - 19:10
Sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir tilkynnti um lok á sínum keppnisferli í íþróttinni í dag. Eygló komst í úrslit á Ólympíuleikum 2016 og fór fyrst íslenskra sundkvenna á verðlaunapall á stórmóti á EM 2015. Erfið meiðsli hafa hrjáð hana undanfarin ár og komst hún því að þessari niðurstöðu.

Eygló Ósk tilkynnti á samfélagsmiðlum í dag að hún hefði ákveðið að hætta keppni í sundi aðeins 25 ára gömul. Eygló segir ákvörðunina eiga sér langan aðdraganda.

„Þetta er svolítið löng og erfið ákvörðun, ég er búin að vera að hugsa bara um þetta frá því að COVID byrjaði en planið var náttúrulega alltaf að synda í sumar og reyna að komast á þessa Ólympíuleika og hætta svo. En svo náttúrulega kom þetta blessaða COVID og það fór allt á hliðina. Ég er búin að vera að berjast við sjálfa mig hvort ég eigi að halda áfram í eitt ár eða ekki og ég held þetta sé bara besta ákvörðunin.“ segir Eygló Ósk í samtali við RÚV í dag.

Erfið ár eftir Ólympíuleikana í Ríó

„Seinustu þrjú árin eru búin að vera mjög erfið fyrir mig í sundinu og ég er búin að fara í gegnum mikið af erfiðleikum, mikið meidd, og er í raun ekki búin að bæta mig síðan á síðustu Ólympíuleikum - sem eru að verða fjögur ár síðan. Þannig að þetta er búið að vera mjög erfitt. Það var svona óvissa bæði með hvort ég gæti farið hraðar, hvort ég gæti æft og svo bara fjármál í annað ár. Svo er ég líka bara búin að vera að þessu í 20 ár,“

Getur loksins safnað fyrir íbúð

Eygló nefnir þarna fjármálin sem afreksíþróttafólk hefur komið í umræðuna síðustu misseri. Eygló segir gríðarmikinn kostnað fylgja því að vera afrekskona í sundi.

„Þetta er mjög kostnaðarsamt. Ég bý enn hjá foreldrum mínum og er 25 ára gömul, en núna fyrst í sumar var ég að fá fyrstu sumarvinnuna mína. Ég bara núna fyrst að geta safnað mínum eigin peningi og get haft efni á að kaupa mér íbúð einhvern tímann núna á næstunni, í framtíðinni. Þetta er búinn að vera mjög mikill peningur sem hefur farið í sundið, en ég sé ekki eftir neinu, er búin að fá mjög mikið af styrkjum og það er flott fólk alls staðar í bænum sem er tilbúið að styrkja mig líkt og ÍSÍ enda er þetta rosalegur kostnaður og mikið sem þarf að hugsa um.“

ÓL 2016 og EM 2015 standa upp úr

En þegar litið er yfir þennan langa feril, hvað stendur upp úr hjá Eygló?

„Klárlega Ólympíuleikarnir seinustu [2016] og svo Evrópumótið í Ísrael þegar ég náði á pall. Ég bjóst ekkert við því þegar ég var á þessu móti að ná á pall, svo fékk ég tvær medalíur og það stendur svolítið mikið upp úr. Svo er auðvitað að komast í úrslit á Ólympíuleikunum. Það er fátt annað sem maður getur ætlast til að ferlinum sínum en að ná svona langt og ég get bara verið mjög stolt af þessu.“

Sálfræðin tekur við

Hvað tekur þá við Eygló, nú þegar sundferlinum er að ljúka?

„Ég er að læra sálfræði og markmiðið mitt er að vera sálfræðingur í framtíðinni. Ég verð örugglega eitthvað að vinna í íþróttahreyfingunni, ég get örugglega ekki slitið mig frá því en allavega er stefnan að verða sálfræðingur, svo að hreyfa sig fyrir heilsuna.“ segir Eygló Ósk.

Viðtalið við Eygló má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.