Sprenging í umsóknum um endurgreiðslu vegna Allir vinna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hátt í fimm þúsund umsóknir hafa borist um endurgreiðslu á virðisaukaskatti í verkefninu Allir vinna sem hrundið var af stað í vor. Flestar snúa þær að bílaviðgerðum.

Verkefnið, sem var hrundið af stað eftir bankahrunið, var endurvakið í vor vegna kórónuveirufaraldursins. 

Það felur nú í sér endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu við bílaviðgerðir og viðhald og nýbyggingar frístunda- og íbúðarhúsnæðis. Skatturinn hefur fengið hátt í fimm þúsund endurgreiðslubeiðnir síðan verkefnið fór af stað eftir miðjan maí og er það meira en búist var við.

„Sérstaklega eins og með þetta nýja sem er bifreiðamálin, ég bjóst ekki alveg við svona sprengju. Þetta er rosalega mikið. En þetta hefur gengið mjög vel miðað við þann tíma sem við höfum fengið að hafa til þess að gera okkar tæki og tól tilbúin fyrir þetta,“ segir Hanna Björnsdóttir umsjónarmaður hjá Skattinum.

Á næstu dögum opnar Skatturinn fyrir móttöku á endurgreiðslubeiðnum frá fleirum, til að mynda íþróttafélögum, björgunar- og slysavarnadeildum og sveitarfélögum. Vegna fjölda umsókna hefur tekið lengri tíma að afgreiða þær en búist var við en ítrekað er að endurgreiðslan á aðeins við um vinnu á framkvæmdastað.

„Það er sem oft er misskilningur er að fólk er að sækja um efniskostnað. Ég vil beina því til fólks að lesa leiðbeiningarnar vel og sækja bara um það sem er endurgreiðsla af. Það flýtir fyrir öllu ferlinu í afgreiðslunni,“ segir Hanna.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi