Sérstakt ástand og þjóðhátíð er þar ekki undanskilin

30.06.2020 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ákveðið hefur verið að goslokahátíðin sem fram fer í Vestmannaeyjum um helgina verði smærri í sniðum en áætlað var, vegna nýrra kórónuveirusmita hér á landi. Hefðbundin Þjóðhátíð er einnig út úr myndinni.

Fyrstu helgina í júlí ár hvert minnast Eyjamenn loka eldgossins sumarið 1973 með veglegri goslokahátíð. 

„Það var tekin ákvörðun af goslokanefnd í gær – það átti að vera svona fjölskyldutónleikar, kvöldtónleikar, sem hefði getað orðið svolítið stór viðburður. Það var tekin ákvörðun um það í gær að taka hann út úr dagskránni. En annað heldur sér,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Nú er síðan aðeins rúmur mánuður í eina stærstu hátíð ársins, Þjóðhátíð, en Vestmannaeyingar hafa gert ráð fyrir að hún verði haldin eins og síðustu áratugi - í það minnsta í einhverri mynd.

„Ég held að við séum öll, ef við eigum að vera raunsæ, búin að vera með það í allan vetur að það eru afskaplega litlar líkur á að það verði þessi hefðbundna þjóðhátíð. Það er bara mjög sérstakt ástandi uppi á Íslandi og það er ekkert sem er venjulegt. Þjóðhátíðin er þar ekkert undanskilin.“

Þessi nýju smit séu því mikilvæg áminning um að ekki megi fara fram úr sér. Í gær var ákveðið að fresta um óákveðinn tíma breytingum á fjöldatakmörkunum og það setur strik í reikninginn. 

„Bara í síðustu viku þá héldum við öll að við værum að fara inn í tvö þúsund manna samkomutakmarkanir. Við erum búin að halda tvö stór fótboltamót sem gengu mjög vel. En auðvitað allt með takmörkunum. Þannig að við vitum það að þetta er ekki venjulegar aðstæður og við verðum að bregðast við frá degi til dags eins og allir landsmenn eru að gera,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi