Segir ábyrgðina í höndum dómsmálaráðherra

Mynd með færslu
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Mynd:
„Dómsmálaráðherra þarf að svara því af hverju hér er ekki í gildi aðgerðaáætlun gegn mansali. Af hverju hér er ekki tekið fastar á hlutunum,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ.  

Ísland kemur illa út í alþjóðlegum samanburði á aðgerðum stjórnvalda gegn mansali. Í nýrri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að Ísland sé meðal þeirra ríkja þar sem stjórnvöld uppfylli ekki lágmarksskilyrði um aðgerðir í málaflokknum, en leggi sig þó fram um það. 

Pólitískur vilji ekki til staðar 

Drífa segir stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði ekki koma sér á óvart. Verkalýðshreyfingin hafi ýtt eftir aðgerðaáætlun gegn mansali í mörg ár en ljóst sé að pólitískur vilji sé ekki til staðar. Ísland hafi undirgengist ákveðnar alþjóðlegar skuldbindingar, sem stjórnvöld hafi ekki staðið við. Þá bendir hún á að samið hafi verið um aðgerðir í þessum málaflokki í lífskjarasamningunum á síðasta ári.

Dómsmálaráðherra beri ábyrgð á því að hér á landi sé ekki í gildi aðgerðaáætlun gegn mansali. „Það þýðir að trekk í trekk eru að koma upp mál sem við erum vanbúin til þess að taka á. Þetta gerir það að verkum að hér getur þrifist mansal og glæpastarfsemi á vinnumarkaði og öðrum stöðum.“ 

Verkalýðshreyfingin gerir kröfu um aðgerðir 

Að sögn Drífu hefur ekkert gerst í málaflokknum, nema samtöl. Hún segir aðgerðir gegn mansali greinilega ekki forgangsmál og að kapp hafi frekar verið lagt á að elta uppi vinnandi fólk. Verkalýðshreyfingin hafi ítrekað lagt fram skýra kröfu um aðgerðir.  

„Við viljum í fyrsta lagi fara í forvarnaraðgerðir. Í öðru lagi viljum við breyta lögunum því þau eru orðin úrelt miðað við okkar kunnáttu á mansali í dag. Og í þriðja lagi þurfum við að vera með virka aðstoð þegar upp koma mansalsmál, til að aðstoða þolendur, og það getur verið flókið. Og svo að rannsaka mál og láta þetta hafa sinn gang í dómskerfinu“. 

Ekki náðist í dómsmálaráðherra við vinnslu þessarar fréttar.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi