Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rukkað fyrir skimanir á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Þorkelsdóttir - RÚV
Opnað verður fyrir komu farþega frá völdum ríkjum utan Schengen-svæðisins á næstu dögum eftir að Evrópusambandið birti lista yfir örugg ríki. Á morgun verður byrjað að rukka fyrir skimun á landamærunum.

Frá og með morgundeginum opna landamæri aðildarríkja Schengen fyrir ferðafólki frá fimmtán löndum utan svæðisins sem skilgreind eru sem örugg ríki. Löndin eru í öllum heimshlutum en tvennt vekur athygli, annars vegar að Kína kemst á listann með þeim fyrirvara að evrópskir ferðamenn fái að ferðast þangað en Bandaríkin ekki, en þar dreifist veiran nú stjórnlaust um suður- og vesturríkin.

Þórólfur gerir ekki athugasemdir

Íslensk stjórnvöld vinna að innleiðingu þessara tilmæla og má búast við að ný reglugerð taki gildi á næstu dögum. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segist í samtali við fréttastofu ekki gera athugasemdir við listann en það kemur í ljós þegar reglugerðin verður birt hvaða ríki opnað verður fyrir.

Flestir borga fyrirfram

Það eina sem breytist á íslensku landamærunum á morgun er að byrjað verður að rukka fyrir skimun. Farþegar geta greitt fyrir skimunina í gegnum forskráningarferlið á netinu en einnig er búið að setja upp posa við skimunarstöðvar. Mikill meirihluti farþega hefur kosið að greiða í gegnum forskráningarferlið enda ódýrara. Það kostar 9 þúsund krónur en 11 þúsund krónur ef greitt er með korti.

Þrír úr ráðuneyti í tveggja vikna sóttkví

Ekkert nýtt smit hefur greinst í dag í tengslum við hópsýkinguna sem kom upp í síðustu viku en fjöldi fólks er í sóttkví. Þrír starfsmenn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví eftir að annað smit á þremur dögum kom upp í ráðuneytinu í gær. Fram hefur komið að mennta- og menningarmálaráðherra er komin í sóttkví eftir að eiginmaður hennar greindist með smit í gær, en hann er annar starfsmanna atvinnuvegaráðuneytisins sem greindist með smit.