Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Raskanir á flugáætlun Icelandair vegna óvissu

30.06.2020 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á flugáætlun Icelandair síðustu daga, gjarnan með litlum fyrirvara. Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, segir röskun á flugáætlun skýrast af óvissu um opnun landamæra, og þá sérstaklega óvissu um ferðamöguleika milli Íslands og Bandaríkjanna. 

Flugframboð í Evrópu stýrist af landamæraopnun Bandaríkjanna 

Það var töluvert verkefni að byrja aftur að fljúga, að sögn Birnu Óskar. Icelandair hafi ákveðið að bjóða strax upp á mikið framboð flugferða til að geta farið hratt af stað eftir að slakað var á ferðatakmörkunum.  

Í fyrstu hafi ríkt bjartsýni um að flug gæti farið af stað af fullum krafti en nú sé enn óvíst hvenær opnað verði fyrir komu bandarískra ferðamanna til Íslands. Því hafi þurft að fella niður töluvert af ferðum. Hún útskýrir að stór hluti farþega félagsins ferðist í gegnum Ísland milli Bandaríkjanna og Evrópu, og því stýrist flugframboð í Evrópu af möguleikanum á því að ferðast til og frá Bandaríkjunum.  

Farþegar eiga kost á nýju flugi, inneign eða endurgreiðslu 

Birna Ósk segir að þegar félagið selji flugmiða skuldbindi það sig til að koma fólki á áfangastað. Þegar flug falli niður sé farþegum boðið að velja annað flug, fá endurgreitt eða fá inneign. 

Fyrirtækið gleðjist yfir því að nú vilji fólk ferðast. Síðustu mánuði hafi fyrirspurnir aðallega snúið að afbókunum og endurgreiðslum, en nú haldi farþegar í vonina um að komast í ferðir.  

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV