Níu starfsmenn atvinnuvegaráðuneytis í úrvinnslusóttkví

30.06.2020 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra er sóttkví þar sem eiginmaður hennar hefur greinst með kórónuveirusmit. Smitið greindist í gær. Lilja var á Alþingi í gær. Hún greindi frá því á Facebook í gær að hún hefði farið í próf hjá Íslenskri erfðagreiningu og að hún væri ekki smituð af veirunni. Samkvæmt upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar hefur þetta ekki áhrif á aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Níu samstarfsmenn eiginmanns Lilju í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eru í úrvinnslusóttkví.

Eiginmaður menntamálaráðherra starfar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en starfsmaður þar greindist með smit í síðustu viku. Lilja er annar ráðherrann sem fer í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra fór í sóttkví í mars þegar starfsmaður ráðuneytisins greindist með smit. 

Á föstudag kom upp smit í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í tengslum við hópsýkingu á höfuðborgarsvæðinu. Ásta Sigrún Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir að þá hafi allir fimmtán sem störfuðu á sömu hæð og sá smitaði, farið í úrvinnslusóttkví. Eftir smitrakningu voru fimm úr þeim hópi settir í sóttkví. Hinir tíu sneru aftur til vinnu. Ráðuneytið var þá sótthreinsað.

Smitið sem greindist í gærkvöldi var á sömu hæð. Þá voru þeir níu sem eftir voru á hæðinni settir í úrvinnslusóttkví á meðan á smitrakningu stendur. Henni er ekki lokið. Ásta Sigrún segir að ráðherrarnir, þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Kristján Þór Júlíusson, þurfi ekki að fara í sóttkví. Þau hafi ekki átt í samskiptum við þann smitaða. Öllu starfsfólki ráðuneytisins hafi þó verið boðið að fara í skimun og flestir hafi þegið það. Ekki hafi þurft að sótthreinsa ráðuneytið á nýjan leik þar sem smitaði starfsmaðurinn var ekki í vinnu í gær. 
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi