Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

MDE fjallar um mál Magnúsar Guðmundssonar

epa06677073 An exterior view of the the European Court of Human Rights in Strasbourg, France, 18 April 2018 .  EPA-EFE/PATRICK SEEGER
 Mynd: EPA
Mannréttindadómstóll Evrópu tekur mál Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, til efnislegrar meðferðar. Hann lagði fram kæru vegna mögulegs vanhæfis tveggja dómara sem dæmdu í markaðsmisnotkunarmálinu svokallaða árið 2016.

Fréttablaðið greinir frá þessu. Magnús var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í Hæstarétti 2016. Hann hlaut ekki refsingu vegna dómsins en hafði þegar hlotið fjögurra og hálfs árs refsingu vegna Al Thani-málsins. 

Magnús leitaði til Mannréttindadómstólsins vegna meints vanhæfis Ingveldar Einarsdóttir og Þorgeirs Örlygssonar, dómara við Hæstarétt, vegna starfa sona þeirra. Sonur Ingveldar var aðstoðarsaksóknari hjá Sérstökum saksóknara og sonur Þorgeirs var yfirlögfræðingur hjá slitastjórn Kaupþings.

Magnús byggir einnig kæruna á hlutafjáreign fjögurra dómara við Hæstarétt í bönkunum sem féllu. 

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í júní fyrra að Árni Kolbeinsson, hæstaréttardómari sem dæmdi í Al Thani-málinu, hafi ekki verið hlutlaus vegna fjölskyldutengsla við bankann. Sonur hans starfaði hjá Kaupþingi fyrir fall bankans og sem starfsmaður í skilanefnd hans eftir hrun. Þá var eiginkona Árna varaformaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins þegar Kaupþing var til rannsóknar.

Niðurstaða um meðferðarhæfi kæru Magnúsar var birt 22. júní og málið bíðurmeðferðar.