Leikföng, ávextir og grænmeti í stað mótmælenda

30.06.2020 - 13:50
Rússar greiða þessa dagana atkvæði um breytingar á stjórnarskrá landsins. Andstæðingar stjórnvalda hafa ekki boðað til mótmæla á götum úti vegna kórónuveirufaraldursins en nýta leikföng og grænmeti sem staðgengla sína.

Þjóðaratkvæðagreiðsla stendur nú yfir í Rússlandi um breytingar á stjórnarskrá. Atkvæðagreiðslunni lýkur á morgun. Morgundagurinn verður aðalkjördagurinn og því frídagur í landinu. Kosið er um ýmsar breytingar í einum pakka. Í þeim felst meðal annars að hjónaband verður skilgreint sem samningur milli karls og konu sem gagnrýnendur hafa bent á að geti komið í veg fyrir að hjónabönd samkynhneigðra verði lögleidd á næstu árum og jafnvel áratugum. Þá fela breytingarnar í sér ýmsar félagslegar umbætur, svo sem um lágmarkslaun. 

COVID-19 faraldurinn er enn skæður í Rússlandi og því hefur þurft að grípa til ýmissa varúðarráðstafana á kjörstöðum. Faraldurinn hefur einnig orðið þess valdandi að andstæðingar stjórnvalda hafa ekki safnast saman og mótmælt. Hluti þeirra hefur þó sýnt andóf á heldur óhefðbundinn hátt, og þannig komist hjá því að brjóta sóttvarnareglur. Andstæðingar breytinganna hafa nýtt samfélagsmiðla og birt þar myndir af leikföngum, ávöxtum og grænmeti á götum úti haldandi á spjöldum þar sem stjórnarskrárbreytingunum er mótmælt. 

Breytingarnar fela í sér að forseti landsins, Vladimír Pútín, getur boðið sig fram á ný þegar þessu kjörtímabili lýkur, árið 2024. Þá hefur hann verið við völd í tæpan aldarfjórðung. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá getur forsetinn ekki setið meira en tvö kjörtímabil í röð.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi