Kolbeinn fékk hvítt duft inn um bréfalúguna

30.06.2020 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég verð að segja að ég hef fengið betri sendingar og vildi óska þess að fólk tjáði sig öðruvísi en á þennan hátt,“ segir í færslu Kolbeins Óttarsson Proppé, þingmanns Vinstri grænna, á Facebook. Honum bárust tveir litlir pokar með hvítu dufti á heimili sitt í morgun. Í færslunni segir að hann geri ráð fyrir að um sé að ræða lyftiduft eða eitthvað álíka.

Sendingin tengist að öllum líkindum frumvarpi Pírata um afglæpavæðingu neyslu vímuefna sem var fellt á Alþingi í nótt. Kolbeinn er einn þeirra sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Hann segir í samtali við fréttastofu að pokarnir tveir hafi blasað við sér þegar hann kom heim til sín af fundi í morgun. 

Aðspurður hvort sendingar af þessu tagi séu óhjákvæmilegur hluti af starfi alþingismanns segir Kolbeinn að skiptar skoðanir séu um það. „En sjálfum finnst mér að svona lagað ætti ekki að fylgja [starfinu].“ 

Kolbeinn segir að á þingmannsævi sinni hafi honum borist furðuleg bréf en ekkert í líkingu við þessa sendingu. Hann telur að mörk heimilis þingmanna séu ekki virt með sama hætti og áður. 

„Ég hef fylgst með pólitík lengi, sem fjölmiðlamaður, sagnfræðingur og nú alþingismaður, og mér finnst eins og orðræðan sé orðin mun persónulegri,“ segir Kolbeinn og bætir við að umræðan sé á sama tíma orðin yfirborðskenndari. „Ef við tökum þetta mál í nótt sem dæmi, þá held ég að ansi margir lesi bara fyrirsagnir,“ segir hann. 

Skjáskot af færslu Kolbeins.
Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi