Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Japanskur koi-fiskur í Elliðaám

30.06.2020 - 00:46
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Harla óvenjuleg sjón blasti við manni sem var að svipast um eftir laxi í Elliðaám í gærkvöldi. Skyndilega synti pattaralegur gulleitur fiskur hjá sem líkist helst japönskum koi-fiski.

Koi-fiskar eru skrautafbrigði ræktaðs vatnakarpa. Að sögn fólks sem hefur haldið þannig fiska hér á landi eru þeir gæfir, skemmtilegir og þekkja eigendur sína.

Koi-fiskar geta orðið nokkuð gamlir, jafnvel allt að hundrað ára. Líklegt er að fiskurinn í Elliðaánum hafi verið gæludýr sem einhvern veginn varð viðskila við eiganda sinn. 

Maðurinn myndaði fiskinn á sundi og dáðist að því hvernig hann hafði betur í keppni við laxa um legustaði. 

Síðast sást til þess gulleita á harðasundi í átt að Kerlingaflúðum sem er næsti veiðistaður í Elliðaám fyrir neðan stíflu.