Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Frekari aðgerða þörf til að treysta byggð í Grímsey

30.06.2020 - 20:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Lægri skattbyrði, aukinn byggðakvóti og hlutverk Grímseyjar varðandi öryggi sjófarenda, eru dæmi um leiðir sem Akureyrarbær vill fara til að treysta byggð í eyjunni. Íbúarnir segja búsetuskilyrði hafa batnað undanfarin ár.

Á íbúafundi sem haldinn var í Grímsey í gær var farið yfir stöðuna í byggðaþróunarverkefni sem þar hefur staðið undanfarin misseri og hvað er fram undan. Fundurinn á sér langan aðdraganda og er haldinn eftir samtöl sem fulltrúar Akureyrarbæjar hafa átt við allar fjölskyldur í Grímsey. 

Aðgerðirnar aukið lífsgæði íbúanna

Íbúarnir segjast sjá breytingar frá því Grímsey varð hluti af Brothættum byggðum árið 2015 - án þess þó að tekist hafi að snúa við neikvæðri íbúaþróun. „Þetta hefur að sjálfsögðu aukið lífsgæði þeirra sem hér búa til muna og þjónustustigið eins og fyrir ferðamenn hefur hækkað. Þannig að þetta hefur skipt okkur gífurlegu máli,“ segir Karen Nótt Halldórsdóttir, verkefnisstjóri Brothættra byggða í Grímsey.

Betra netsamband, greiðari samgöngur og verkefnastyrkir

Undir þetta tekur Jóhannes Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar. „Fyrsta árið var byrjað á því hérna að bæta netsamband og svo er búið að laga mikið samgöngumálin hérna og fleira. Þá er búið að veita fullt af málefnum styrk í gegnum þetta verkefni hérna," segir hann.

Vill horfa til Norðurlandanna með lausnir 

Byggðaþróunarverkefnið var framlengt um eitt ár til að fylgja eftir málum sem ekki er að fullu lokið. Akureyrarbær vill ganga lengra og á nú í viðræðum við ríkisvaldið um sértækar aðgerðir til viðbótar því sem þegar hefur verið gert. „Við þurfum að finna nýjar leiðir og horfa jafnvel til Norðurlandanna og hvernig þau eru að bregðast við þessum jaðarbyggðum lengst í norðri," segir Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar.

Framhaldið ekki síst undir íbúunum sjálfum komið

En framhaldið sé ekki síst undir íbúunum sjálfum komið. „Ég held að bæði sveitarfélagið og Byggðastofnun séu öll af vilja gerð. Við erum búin að gera ýmislegt og erum að ræða næstu aðgerðir. En svo eru það íbúarnir sjálfir og það að fólk sjái bara tækifæri í að koma til þessarrar yndislegu eyju og búa hérna."