Fransk-íranskur vísindamaður í 5 ára fangelsi

30.06.2020 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Fransk-íranskur vísindamaður, Fariba Adelkhah að nafni, hlaut fimm ára fangelsisdóm í Íran í dag. Hún var sakfelld á dómstigi í maí fyrir að hafa ógnað öryggi ríkisins.

Adelkhah stýrir rannsóknum við Sciences Po-háskólann í París. Hún var handtekin í Íran í júní í fyrra og hefur setið í varðhaldi síðan. Samstarfsmaður hennar var einnig handtekinn í fyrra. Hann var látinn laus fyrr á þessu ári eftir að Frakkar létu lausan íranskan verkfræðing. Til stóð að framselja hann til Bandaríkjanna fyrir að hafa brotið gegn refsiaðgerðum sem Íranar eru beittir vegna kjarnorkustefnu þeirra.

Málið hefur valdið misklíð milli stjórnvalda í Frakklandi og Íran. Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, fordæmdi í dag dóminn yfir Adelkhah. Hann krefst þess að hún verði látin laus þegar í stað.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi