Í gær sagði forstjóri Vegagerðarinnar að ný klæðning yrði lögð á vegarkafla á Vesturlandsvegi, þar sem tveir létust í umferðarslysi á sunnudaginn. Nýlögð klæðning þar uppfyllti ekki kröfur Vegagerðarinnar. G. Pétur segir að ekki sé fyllilega vitað hvað olli slysinu.
„Það hreinlega vitum við ekki. Niðurstaðan var að malbikið varð of hált. Ferlarnir við útlögnina virðast vera réttir hjá verktakanum. Sama má líka segja um framleiðsluna á malbikinu, menn gera þetta ekki blindandi, þeir „testa“ hvað þeir eru að gera. Það er ekki hægt að benda á eitthvað eitt og segja, þetta gerðist,“ sagði G. Pétur.
Hann sagði að á Kjalarnesi hefðu skapast slæmar aðstæður. Viðnám malbiksins yrði minna með auknum hita og við hefði bæst rigning.