Enska deildin vill taka yfir kvennadeildina þar í landi

epa08452372 A man wearing a protective mask walks past the Premier League logo in London, Britain, 29 May, 2020. Premier League football is set to return after some twelve weeks of lockdown, with top-flight games in England scheduled to resume June 17. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA

Enska deildin vill taka yfir kvennadeildina þar í landi

30.06.2020 - 14:19
Enska úrvalsdeildin, Premier League, hefur boðið úrvalsdeild kvenna þar í landi, Women's Super League eina milljón punda til að hjálpa til við að koma deildinni af stað í haust. Framkvæmdastjóri karladeildarinnar segir vilja til að taka yfir umsjón með kvennadeildinni á komandi árum.

Upphæðin samsvarar rúmum 170 milljónum íslenskra króna og myndi það gera úrvalsdeild kvenna kleift að að skima leikmenn fyrir COVID-19 áður en tímabilið hefst.

Enska knattspyrnusambandið hefur umsjón með úrvalsdeild kvenna. Kelly Simmons, yfirmaður kvennaknattspyrnu hjá sambandinu, hefur gefið í skyn að stefnt sé að því að hefja tímabilið í september en engar dagsetningar hafa verið gefnar út. Talið er nauðsynlegt að skima leikmenn áður en hægt verði að hefja keppni en engu fjármagni var veitt sérstaklega til kvennadeildarinnar vegna þessa.

Richard Masters, framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, segir mikinn vilja innan ensku úrvalsdeildarinnar að kvennaknattspyrnan komist aftur í gang. Þá hefur hann greint ráðamönnum í Bretlandi frá áhuga deildarinnar á því að taka yfir kvennadeildina. Þó telur hann að nú sé ekki rétti tíminn vegna áhrifa kórónaveirunnar. „Frá mínu sjónarhorni er það eitthvað sem ég vil gera í framtíðinni, að vera ekki bara ábyrgur fyrir toppnum á píramídanum í karlaboltanum, heldur líka í kvennaboltanum,“ hefur BBC eftir Masters. „Þetta á mjög vel saman og myndi hvetja enn fleiri stelpur til að spila fótbolta,“ segir hann.

Nýafstaðið tímabil í kvennadeildinni var stöðvað í mars líkt og flestar aðrar deildir en var svo blásið af þann 25. maí síðastliðinn. Chelsea varð enskur meistari, þrátt fyrir að vera í öðru sæti í deildinni þegar hún var blásin af, þar sem farið var eftir meðal stigafjölda á leik. Manchester City var á toppnum með 40 stig úr 16 leikjum en Chelsea var með 39 stig og hafði leikið einum færri leik.